Za Dengel
Za Dengel (d. 24. október 1604) var Eþíópíukeisari sem Asnaf Sagad 2. 1603 til 1604. Hann var bróðursonur Sarsa Dengel keisara sem ætlaðist til þess að hann tæki við embættinu, en þess í stað var Jakob sonur Sarsa Dengels gerður að keisara 1597.
Za Dengel var sendur í útlegð á eynni Daq á Tanavatni. Hann flúði þaðan til Gojjam. Þegar Za Sellase varð ráðgjafi Jakobs notaði hann tækifærið og setti Jakob af og gerði Za Dengel að keisara. Za Sellase ætlaðist aldrei til þess að Za Dengel yrði annað en leppur en hann boðaði jesúítann Pedro Páez til hirðarinnar í Dankaz og tók kaþólska trú.
Við þetta fékk hann Za Sellase upp á móti sér. Hann skipulagði uppreisn gegn keisaranum og hugðist koma Jakobi aftur á valdastól. Za Dengel fór með her sinn gegn honum en þurfti að láta í lægra haldi, þrátt fyrir aðstoð 200 portúgalskra skytta.