Jakob Eþíópíukeisari

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jakob Eþíópíukeisari (Ge'ez ያዕቆብ yāʿiqōb, amharíska: yā'iqōb; 159010. mars 1607) var Eþíópíukeisari með konungsnafnið Malik Sagad 2. frá 1597 til 1603 og aftur 1604 til 1606.

Jakob Eþíópíukeisari var af Salómonsætt, elsti sonur Sarsa Dengel keisara. Sarsa Dengel ætlaðist til að frændi hans, Za Dengel, tæki við af honum en fyrir bænastað eiginkonu sinnar, Maryam Sena, valdi hann Jakob sem varð keisari sjö ára gamall. Hinir sem áttu mögulegt tilkall til krúnunnar voru sendir í útlegð, Za Dengel til fjallanna umhverfis Tanavatn og Susenyos til oromoa.

Stjórn ríkisins var í höndum hertogans Antenatewos. Sex árum eftir valdatöku Jakobs lenti honum saman við Antenatewos og setti Za Sellase í hans stað. Za Sellase velti þá Jakobi úr sessi og gerði Za Dengel að keisara í hans stað. Þegar Za Dengel tók kaþólska trú snerist Za Sellase gegn honum og gerði uppreisn. Za Dengel féll í bardaga við her Za Sellase 24. október 1604 og Jakob varð aftur keisari.

Skömmu síðar hélt Susenyos norður á bóginn með her Oromoa gegn Za Sellase. Hann mætti her hans í Begemder og stráfelldi hann en Za Sellase flúði til búða Jakobs. Viðbrögð keisarans leiddu svo til þess að Za Sellase hljópst undan merkjum og gekk til liðs við Susenyos. Herir Jakobs og Susenyosar mættust svo í orrustunni við Gol í Gojjam þar sem Jakob féll.