Youdan-bikarinn
Youdan bikarinn (enska: Youdan Cup eða The Youdan Football Cup) var bikarkeppni í fótbolta sem haldin var í Sheffield árið 1867 og er talin fyrsta knattspyrnukeppni í heimi með útsláttarfyrirkomulagi og raunar eitt fyrsta eiginlega fótboltamótið. Keppnin dró nafn sitt af styrktaraðilanum Thomas Youdan, sem rak leikhús í borginni. Vinsældir hennar kunna að hafa orðið kveikjan að stofnun ensku bikarkeppninnar nokkrum árum seinna.
Saga og fyrirkomulag
[breyta | breyta frumkóða]Á sjöunda áratug nítjándu aldar voru reglur knattspyrnuíþróttarinnar ekki að fullu samræmdar. Enska knattspyrnusambandið var stofnað árið 1863 og samþykkti um leið sínar eigin reglur, sem einkum nutu vinsælda í Lundúnum. Félagar í Sheffield F.C., sem talið er elsta starfandi knattspyrnufélag veraldar, höfðu þó samþykkt sínar eigin reglur þegar árið 1858. Sheffield-reglurnar nutu talsverðra vinsælda í norðanverðu Englandi. Birtist munurinn í ýmsu. Þannig var rangstaða hluti af reglum Enska knattspyrnusambandsins en Sheffield-reglurnar gengu lengra í að banna leikmönnum alfarið að handfjatla knöttinn. Báðar keppnisreglurnar héldu áfram að þróast á næstu árum og tókst ekki að sameina þær fyrr en árið 1877.
Knattspyrnuviðureignir þessara ára voru yfirleitt stakir æfinga- og vináttuleikir. Óljóst er hvernig hugmyndin kom til en í janúar 1867 komu fulltrúar þrettán fótboltaliða í Sheffield saman og ákváðu að efna til móts. Leikið skyldi eftir Sheffield-reglunum, tólf leikmenn ættu að vera í hvoru liði, hver leikur yrði 90 mínútur og framlengdur um klukkustund ef úrslit fengjust ekki. Væri enn jafnt eftir framlengingu skyldu liðin mætast að nýju. Tveir eftirlitsmenn, einn frá hvoru liði, skyldu fylgjast með leiknum og úrskurða um vafaatriði. Ef þeim bæri ekki saman skyldi sérstakur dómari skera úr. Í tengslum við mótið voru Sheffield-reglurnar endurskoðaðar enn eina ferðina og enn frekari hömlur settar á að leikmenn notuðu hendur og dregið úr hvers kyns hrindingum og bolabrögðum.
Keppt var um verðlaunagrip sem athafnamaðurinn Thomas Youdan gaf. Bar mótið nafn Youdan og var það hugsað í auglýsingaskyni fyrir leikhús sem hann starfrækti í borginni. Að undangenginni samkeppni var verðlaunagripurinn valinn og jafnframt ákveðið að næstfallegasta tillagan skyldi verða veittur fyrir annað sætið.
Sheffield F.C., langöflugasta lið borgarinnar, ákvað að lokum að taka ekki þátt í mótinu. Félagsmenn töldu mikilvægara að ferðast um landið og kynna Sheffield-reglurnar sem víðast. Tólf lið mættu því til leiks og fóru allar viðureignirnar í fyrstu umferð fram á sama degi, 16. febrúar. Viku síðar fóru leikirnir í annarri umferð fram. Þar á meðal mættust Hallam F.C. og Norton í framlengdum og markalausum leik. Áhorfendur voru sagðir á fjórða þúsund, sem var mesti fjöldi á knattspyrnuleik til þess tíma og var það met ekki slegið fyrr en í úrslitum enska bikarsins árið 1878.
Hallam fór að lokum með sigur af hólmi í mótinu eftir sigur á Norfolk í úrslitaleiknum. Norfolk hafði svo betur í leik við Mackenzie í keppni um silfurverðlaunin.
Keppnin um Youdan bikarinn var talin afar vel heppnuð, þótt ekki tækist að endurtaka leikinn árið eftir eða síðar. Í ljós kom að útsláttarfyrirkomulagið jók keppnisskap liðanna verulega og viðureignirnar urðu fjörlegri en venja var til, en um leið jókst harkan. Töluvert var um pústra og meiðsli, gekk það raunar þvert á markmiðið með Sheffield-reglunum sem miðuðu við að gera íþróttina minna ofbeldisfulla en eldri fótboltaafbrigði. Áhorfendur kunnu hins vegar að meta kappið eins og sást á háum áhorfendatölum. Líklegt verður að telja að Youdan bikarinn hafi orðið stjórnendum Enska knattspyrnusambandsins innblástur þegar bikarkeppnin var stofnuð nokkrum árum síðar.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Youdan Cup“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 18. júlí 2022.