Fara í innihald

Forgangsröðunaraðferðin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Yfirfæranlegt atkvæði)

Forgangsröðunaraðferðin (e. single transferable vote, skammstafað STV) einnig verið kölluð yfirfæranlegt atkvæði eða persónulegar hlutfallskosningar, er persónukjörs kosningaaðferð þar sem kjósandi forgangsraðar frambjóðendum þess lista sem hann kýs með númerum. Við talningu er hugsað fyrir því að ekkert atkvæði fari forgörðum þannig að þegar efsta manneskjan á listanum hefur hlotið nægilega mörg atkvæði til að ná kjöri eru umframatkvæði hennar flutt niður númeraða listan til næstu manneskju og svo koll af kolli. Markmið aðferðarinnar er því að lágmarka sóun atkvæða.[1][2]

Saga forgangröðunaraðferðarinnar

[breyta | breyta frumkóða]
Carl Andræ

Hugmyndin að forgangsröðunaraðferðinni var fyrst sett fram af Thomas Wright Hill árið 1821. Kerfið var ekki notað í alvöru kosningum fyrr en 1855 þegar Carl Andræ lagði til að forgangsröðunaraðferðinni yrði beitt í kosningum í Danmörku. Kerfi Andræ var notuð árið 1856 til að kjósa til danska Ríkisráðsins og 1866 var það einnig aðlagað fyrir óbeinar kosningar til annarar deildar þingsins, Landsþingsins og hélst þannig þar til ársins 1915.

Mest hefur kerfið verið notað á Írlandi en þar hefur það verið notað alfarið í kosningum lengi. Fyrirkomulag Íra er notað víða í öðrum engilsaxneskum löndum.[3]

Forgangröðunaraðferðin á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrst er vitað til þess að skrifað hafi verið um aðferðina á Íslandi af Baldri Símonarsyni í grein í Alþýðublaðinu 6. nóvember 1968, undir heitinu Persónulegar hlutfallskosningar.[4][5]

Árið 1976 birtist svo í tímaritinu Stefni, málgagni sambands ungra sjálfstæðismanna, grein eftir Jón Steinar Gunnlaugsson undir heitinu, Innleiðum persónukjör, þar sem hann lýsir ýtarlega forgangsröðunaraðferðinni og kallar hana persónukjör með valkostum. Tilefni greinar Jóns Steinars var sú að samvinnunefnd ungliðasamtaka þriggja stjórnmálaflokka, Sambands ungra framsóknarmanna, Sambands ungra jafnaðarmanna og Sambands ungra sjálfstæðismanna, skilaði sameiginlegri álitsgerð um „kjördæmaskipan og kosningarréttarmálefni“ sem birt var í sama hefti Stefnis. Þar leggja þær til að tekin verði upp umrædd aðferð.[6]

Forgangsröðunaraðferðin hefur aðeins einu sinni verið notuð á Íslandi, en það var í kosningum til Stjórnlagaþings árið 2011.[7][8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Forgangsröðunaraðferð“ (PDF). Sótt 8. október 2012.
  2. „Aðferðin við talningu atkvæða“ (PDF). Sótt 8. október 2012.
  3. „Aðferðafræði við kosningu til stjórnlagaÞings“. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. mars 2011. Sótt 8. október 2012.
  4. „Persónulegar hlutfallskosningar“. Sótt 8. október 2012.
  5. „Ágrip af sögu STV“ (PDF). Sótt 8. október 2012.
  6. „Ágrip af sögu STV“ (PDF). Sótt 8. október 2012.
  7. „Aðferðafræði við kosningu til stjórnlagaþings“. Afrit af upprunalegu geymt þann 1. mars 2011. Sótt 8. október 2012.
  8. „Forgangsröðunaraðferð“ (PDF). Sótt 8. október 2012.