Yayoi Kusama

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kusama ásamt Shinzo Abe árið 2013.

Yayoi Kusama (草間 彌生 Kusama Yayoi, f. 22. mars 1929) er japönsk myndlistarkona þekktust fyrir innsetningar, en hefur líka fengist við málverk, gjörningalist, vídeólist, tískuhönnun, ljóðlist og ritstörf. Verk hennar falla undir konseptlist og tengjast mínimalisma, popplist og súrrealisma. Þau snúast oft um fortíð hennar, kynlíf og andlegt ástand. Eitt af einkennismerkjum hennar eru doppumynstur sem hún kallar „óendanleikanet“ og eiga sér uppruna í ofskynjunum sem hún hefur upplifað frá barnæsku. Hún hefur búið til „mjúkar höggmyndir“ með því að þekja hluti með fíngerðum mynstrum af doppum og öðrum hlutum. Frá 1963 hefur hún gert nokkur „óendanleikaherbergi“ með speglum og skærlitum kúlum sem hanga í mismunandi hæð og skapa tilfinningu fyrir óendanlegu rými.

Hún fæddist í Matsumoto í Japan og lærði að mála Nihonga-myndir eftir síðari heimsstyrjöld. Hún fékk áhuga á evrópsku framúrstefnunni og tók að mála óhlutbundin mynstur á hluti. Árið 1957 flutti hún til Bandaríkjanna þar sem hún varð brátt þekkt meðal framúrstefnulistamanna. Hún deildi vinnustofu með Donald Judd og Evu Hesse í New York snemma á 7. áratugnum. Seinna fékkst hún við gjörninga sem oft fólu í sér nekt og lýstu andstöðu við Víetnamstríðið. Frægt er þegar hún bauðst til að sofa hjá Richard Nixon gegn því að hann stöðvaði stríðið. Hún glímdi við geðsjúkdóma og flutti aftur til Japans 1973 þar sem hún skráði sig inn á geðsjúkrahús í Tókýó fjórum árum síðar. Hún hefur búið þar síðan með hléum og haldið vinnustofu þar skammt frá. Hún hefur sagt að „ef ekki væri fyrir listina hefði ég drepið mig fyrir löngu“.[1] Áhugi á verkum hennar óx aftur á 9. og 10. áratugnum, sérstaklega eftir að hún sá um japanska sýningarsalinn á Feneyjatvíæringnum 1993. Síðan þá hafa margar yfirlitssýningar verka hennar verið haldnar víða um heim, auk þess sem hún hefur haldið listsköpun sinni áfram.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Art Review (interview), 2007, afrit af upprunalegu geymt þann 20. september 2016, sótt 18. febrúar 2010