Wikipedia:Markverðugleiki (fólk)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þetta er síða sem tjáir skoðanir og hugmyndir sumra notenda Wikipediu. Ef til vill útskýrir hún og skerpir skilning á stefnum Wikipediu en eigi að síður inniheldur hún ekki opinberar reglur vefsins. Breytið og aukið við síðuna eftir þörfum eða notið spjallsíðuna til að ræða tillögur að veigamiklum breytingum.
Markverðugleiki

Leiðbeiningar um markverðugleika


Þessar leiðbeiningar eru ekki opinber stefna Wikipediu (og raunar má deila um beitingu markverðugleikahugtaksins sjálfs). Það er engu að síður skoðun margra notenda að þessi mælikvarði sé eðlilegur og sanngjarn prófsteinn á það hvort persóna hafi hlotið nægilega óháða umfjöllun utan Wikipediu til þess að hægt sé að skrifa um hana hlutlausa grein byggða á sannreynanlegum upplýsingum úr áreiðanlegum heimildum án þess að frumrannsóknir fljóti með (allt er þetta opinber stefna Wikipediu). Þótt einhverju þessara skilyrða sé ekki fullnægt er ekki endilega nauðsynlegt að eyða efninu; að sama skapi er ekki nauðsynlegt að samþykkja efni sem uppfyllir eitt eða fleiri áðurnefndra skilyrða.

Í Wikipediu eru æviágrip mikilvægra persóna úr sögu og samtíð, rétt eins og í öllum alfræðiritum. Þótt Wikipedia sé ekki prentmiðill eru samt ýmis atriði sem mætti hafa í huga þegar tekin er ákvörðun um að bæta við grein um manneskju.

Sjá einnig reglur um æviágrip lifandi manneskja.

Fólk sem fellur í einhvern eftirfarandi hópa gæti átt skilda sérstaka grein um sig á Wikipediu enda er að líkindum til nóg af sannreynanlegum upplýsingum um það og nokkur áhugi á þeim. Þessum lista er ekki ætlað að útiloka neinn; bara af því að einhver passar ekki í neinn tiltekinn af eftirfarandi flokkum er ekki þar með sagt að það verði að eyða greininni um viðkomandi.

  • Persóna sem hefur lagt mikið af mörkum á sínu sviði og framlög þess eru skjalfest
  • Stjórnmálamenn sem gegna hlutverki í alþjóðastjórnmálum eða mikilvægum embættum í sínum löndum
  • Stjórnmálamenn sem mikið er fjallað um í fjölmiðlum
  • Vel þekktir skemmtikraftar og álitsgjafar
  • Íþróttamenn í atvinnumennsku eða í fremstu röð þ.á m. í háskólaíþróttum í Bandaríkjunum.
  • Markverðir leikarar og sjónvarpsfólk sem hefur brugðið fyrir í vel þekktum kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum. Markverðugleika má m.a. ráða af:
    • því að oft hefur verið fjallað um viðkomandi í tímaritum á borð við Vogue, GQ, Elle, FHM eða víðlesnum dagblöðum
    • því að viðkomandi á stóran hóp aðdáenda
    • því að ævisaga viðkomandi hefur komið út hjá óháðum útgefanda
    • því að fólk kannast almennt við nafn viðkomandi
  • Útgefnir höfundar, ritstjórar og ljósmyndarar sem oft er fjallað um í óháðum ritdómum eða hafa margsinnis hlotið verðlaun fyrir störf sín
  • Listmálarar, listamenn, arkitektar, verkfræðingar og aðrir sem hafa unnið að vel þekktum verkefnum og sem líklegt er að muni hljóta varanlegan sess í sögu sinnar greinar
  • Fólk sem hefur hlotið frægð vegna aðildar sinnar að fréttnæmum atburðum

Um tónlistarmenn, sjá Wikipedia:Markverðugleiki (tónlist).

Önnur próf[breyta frumkóða]

Meðal annarra prófa sem mætti beita eru:

  • prófessorsprófið — Ef viðkomandi er betur þekktur og hefur gefið út meira eða mikilvægara efni en meðalháskólakennari, þá má skrifa um þá greinar. (Sjá umræður á: Wikipediaspjall:Markverðugleiki (fræðimenn).)
  • Sannreynanleikareglan — Er hægt að fá allar upplýsingar greinarinnar staðfestar núna? (Sumir spyrja hvort efnið verði sannreynanlegt eftir 10 ár.)
  • Stubbaprófið — Verður greinin nokkurn tímann annað en stubbur? Væri hægt að skrifa fullkomna grein um efnið?
  • 100 ára prófið (litið til framtíðar) — Mun einhverjum sem ekki er tengdur viðkomandi þykja greinin gagnleg eftir 100 ár?
  • 100 ára prófið (litið til fortíðar) — Myndi einhverjum sem ekki er tengdur viðkomandi þykja greinin gagnleg í dag ef við hefðum samskonar grein með sannreynanlegum upplýsingum um manneskju sem var uppi fyrir 100 árum síðan?
  • Ævisöguprófið — Hefur viðkomandi fengið gefna út sjálfsævisögu sína hjá óháðum útgefanda? Hefur einhver annar skrifað ævisögu viðkomandi?
  • Leitarvélaprófið — Skilar leit að viðkomandi á Google eða annarri leitarvél mörgum niðurstöðum um viðkomandi?

Ef greinin fellur á prófinu[breyta frumkóða]

Ef greinin fellur á prófinu um markverðugleika gætirðu vakið máls á því á spjallsíðunni eða á spjallsíðu höfundar hennar. Oft getur greinarhöfundur gert grein fyrir markverðugleika viðkomandi en áttaði sig ekki á að þess væri þörf.

Ef þú ert ekki sammála því að viðkomandi sé markverður gæti verið best að útskýra sjónarmið þitt fyrir höfundi greinarinnar áður en þú leggur til að greininni verði eytt ef vera skyldi að höfundur gæti bætt greinina.

Persónuleg skilaboð um áhyggjur þínar á spjallsíðu greinarinnar eða spjallsíðu höfundar eru almennt gagnlegri en staðlað snið sem útskýrir ekki hvers vegna þú telur að viðkomandi sé ekki markverður.

Fyrirmynd greinarinnar var „Wikipedia:Notability (people)“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 27. júlí 2006.