Wikipedia:Markverðugleiki (fræðimenn)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Markverðugleiki

Leiðbeiningar um markverðugleika


Leiðbeiningum þessum, sem stundum eru nefndar prófessorsprófið, er ætlað að endurspegla í megindráttum samkomulag Wikipediasamfélagsins um markverðugleika fræðimanna. Athugið að háskólastöður eru breytilegar í mismunandi löndum. Eftirfarandi leiðbeiningar eiga við um alla háskólakennara (prófessora, dósenta, lektora) og fræðimenn sem starfa í háskólum en einnig sjálfstætt starfandi fræðimenn.

Mælikvarði[breyta frumkóða]

Ef fræðimaður eða prófessor uppfyllir eitt af eftirfarandi skilyrðum er persónan klárlega markvert efni. Ef fræðimaður eða prófessor uppfyllir ekkert þessara skilyrða getur viðkomandi eigi að síður verið markvert efni og gildi greinarinnar ræðst þá að verulegu leyti af sannreynanleika hennar.

  1. Viðkomandi er talinn mikilvægur sérfræðingur á sínu sviði af óháðum aðilum.
  2. Viðkomandi er talinn mikilvæg persóna af öðrum á sama sviði.
  3. Viðkomandi hefur gefið út mikið af fræðilegu efni í fræðilegum tímaritum og/eða í bókum hjá óháðum útgefendum (sem hafa eitthvert fræðilegt mikilvægi).
  4. Viðkomandi hefur gefið út mikilvægt, vel þekkt eða áhrifamikið fræðirit eða mikilvægar, vel þekktar eða áhrifamiklar fræðigreinar í fræðilegum tímaritum.
  5. Viðkomandi er þekktur fyrir að hafa kynnt til sögunnar mikilvægt nýtt hugtak, kenningu eða hugmynd.
  6. Viðkomandi er þekktur fyrir að hafa verið kennari eða leiðbeinandi mjög frægs eða markverðugs nemanda.
  7. Viðkomandi hefur hlotið virðuleg verðlaun eða verið heiðraður fyrir verk á sínu sviði eða hefur verið tilnefndur til slíkra verðlauna margsinnis.

Eftirfarandi eru nokkur dæmi um beitingu þessara þumalfingursregla.

  1. Fræðimaður sem hefur gefið út alþýðlega bók eða bækur sem vekja almennan áhuga, víðlesna skólabók eða ófræðilegar ritgerðir í víðlesnum tímaritum er sennilega markverður höfundur, óháð fræðilegum eða vísindalegum afrekum. Á sama hátt er fræðimaður sem er tengdur málefnum líðandi stundar sennilega markvert efni.
  2. Fræðimaður sem ítrekað er vitnað í í fjölmiðlum, dagblöðum eða tímaritum gæti uppfyllt skilyrði númer 1. Gera má ráð fyrir að minni fjölmiðlar vitni af og til í einhverja fræðimenn svo að nokkrar tilvitnanir í lítt útbreiddum fjölmiðlum nægir sennilega ekki.
  3. Fræðimaður sem uppfyllir skilyrði númer 2 mun sennilega uppfylla fleiri skilyrði líka. Eigi að síður getur verið nóg að uppfylla bara skilyrði númer 2.
  4. Það er erfitt fyrir þá sem þekkja ekki til í akademískri fræðigrein að dæma hvort skilyrðum 3 og 4 sé fullnægt: Í sumum greinum gefa menn út mun tíðar en í öðrum greinum; í sumum tilvikum eru bækur megin-útgáfuvettvangurinn en í öðrum tilvikum eru greinar í fræðitímaritum algengustu útgáfurnar. Eigi að síður getur fjöldi útgefinna verka verið vísbending um mikilvægi viðkomandi að einhverju leyti. Mikilvægi fræðigreinar eða bókar má stundum ráða af því hve oft vísað er til hennar í öðrum fræðigreinum og fræðiritum.
  5. Varast ber Google Scholar: Google Scholar er ágætistól fyrir (1) fræðigreinar sem byggja einkum á útgáfu fræðigreina fremur en bóka (2) fræðigreinar þar sem sérhver (eða nánast sérhver) útgáfuvettvangur er til á netinu. Flestar greinar tölvunarfræðinga munu finnast með hjálp Google Scholar en síður svo í greinum sem ekki eru eins tæknivæddar (e.t.v. bókmenntafræði og fornleifafræði). Því ætti einungis að reiða sig á Google Scholar til að styðja markverðugleika en ekki hið gagnstæða (að viðkomandi sé ekki markverður).
  6. Ef fræðimaður er upphafsmaður hugmyndar eða hugtaks sem er mikilvægt á einhverju sviði, þá uppfyllir viðkomandi skilyrði númer 5 en upphafsmaður hugmyndar sem er keimlík annarri hugmynd þarf ekki að uppfylla skilyrði númer 5.
  7. Einn mælikvarði á mikilvægi í heimi fræðanna er árangur nemenda viðkomandi (venjulega doktorsnema en undantekningar eru hugsanlegar). Prófessor sem á sér afar vel þekktan nemanda gæti hugsanlega verið markverður af þeim sökum einum: Slíkur fræðimaður upfyllir skilyrði númer 6. En það eitt að eiga sér markverðan nemanda er ekki nóg: (1) nemandinn ætti að vera gríðarlega markverður og (2) fræðimaðurinn ætti að vera helsta fyrirmynd eða megininnblástur nemandans.
  8. Að gegna stöðu prófessors við mjög virtan háskóla eða að gegna virðulegri prófessorsstöðu (t.d. prófessorsstöðu með nafni) við virðulegan háskóla getur talist verðlaun eða heiður samkvæmt 7 að ofan.

Varúðarorð[breyta frumkóða]

Eitt og annað þarf að varast.

  1. Gætið að því að ef fræðimaður er markverður einungis vegna tengsla hans við eitt hugtak, eina ritgerð, hugmynd eða atburð, þá gæti verið við hæfi að geta hans frekar í grein um það efni og gera greinina um fræðimanninn að tilvísunarsíðu.
  2. Athugið að þetta eru leiðbeiningar en ekki reglur. Það geta verið undantekningar. Sumir fræðimenn uppfylla e.t.v.ekki þessi skilyrði en eru engu að síður markverðir vegna fræðistarfa sinna. Það er mikilvægt að átta sig á að það er afar erfitt að tilgreina skýr skilyrði varðandi fjölda útgefinna verka eða gæði þeirra: í reynd er mælikvarðinn afar breytilegur frá einni fræðigrein til annarrar. Þessar tillögur setja markið fremur lágt og það er eðlilegt; að einhverju leyti eru fræðimenn opinberar persónur sem reyna að hafa áhrif á aðra með verkum sínum og hugmyndum. Það er ekki nema eðlilegt að þeir sem ná árangri séu taldir markverðir.

Fyrirmynd greinarinnar var „Wikipedia:Notability (academics)“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 27. júlí 2006.