Wikipedia:Grein mánaðarins/11, 2019
York (stundum nefnd Jórvík á íslensku) er borg í Norður-Yorkshire í Englandi. Hún hefur lengst af tilveru sinnar verið höfuðborg, fyrst rómverska hluta Englands, en síðar konungsríkjanna Norðymbralands (engilsaxa), Jórvíkur (víkinga) og nú síðast Yorkshire. Mikil saga og menning einkenna borgina. Íbúar eru rétt tæplega 200 þús.
Á tímum Rómverja hét borgin Eboracum. Ekki hefur tekist svo öruggt sé að skýra heitið, enda upprunnið í keltnesku. Ekki er ólíklegt að það sé dregið af trjátegundinni ýviði. Það voru engilsaxar sem tóku heitið hljóðfræðilega upp og breyttu því í Eoforwic á 7. öld. Fyrri hluti heitisins merkir göltur. Þegar Danir hertóku borgina 866 kölluðu þeir borgina Jórvík. Þannig er hún enn gjarnan kölluð á íslensku í dag. Heitið styttist hins vegar í ensku og kemur fram í ýmsum myndum, s.s. Yerk, Yourke, Yarke og loks York, en síðastnefnda heitið kom fyrst fram á 13. öld.