Wikipedia:Gæðagreinar/Ál
Ál (sjaldan alúminíum) er frumefni með efnatáknið Al úr bórhópi lotukerfisins með sætistöluna 13. Ál er silfurlitaður og sveigjanlegur tregur málmur. Það leysist almennt ekki í vatni. Það myndar 8% massa jarðskorpunnar og er þar með algengasti málmurinn og þriðja algengasta frumefni hennar á eftir súrefni og kísli. Ál er svo hvarfgjarnt að það kemur ekki fyrir hreint í náttúrunni en finnst í meira en 270 mismunandi efnasamböndum. Ál er jafnan unnið úr súráli með álbræðslu.
Efnið er þekkt fyrir léttleika og viðnám sitt gegn tæringu (vegna fyrirbæris er nefnist hlutleysing). Ál og álblöndur eru aðalsmíðaefni flugvéla og íhluta í margvísleg önnur flutningatæki og byggingar þar sem not eru fyrir léttleika, varanleika og styrk. Ál er einnig mikið notað í drykkjardósir. Vegna hvarfgirni þess er það gagnlegt sem hvati eða bætiefni í ýmsar efnablöndur og er þannig til dæmis notað í ammoníumnítrat-sprengiefni til að auka sprengikraft.