Fara í innihald

Vísindafélag Íslendinga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vísindafélag Íslendinga var stofnað 1. desember 1918 til að efla vísindastarfsemi í landinu. Frumkvæði að stofnun þess áttu Ágúst H. Bjarnason og Sigurður Nordal prófessorar við Háskóla Íslands.

Um félagið

[breyta | breyta frumkóða]

Þó að 1. desember 1918 sé talinn stofndagur félagsins var fyrsta stjórn félagsins kosin 19. janúar 1919. Hana skipuðu: Ágúst H. Bjarnason forseti, Einar Arnórsson ritari og Guðmundur Finnbogason gjaldkeri. Félagsmenn voru upphaflega þeir fastir kennarar við Háskóla Íslands, er þess óska.

Félagsmenn eru annars vegar „reglulegir félagsmenn“ sem búa hér á landi, og „bréfafélagar“ sem búsettir eru erlendis. Upphaflegur fjöldi félagsmanna var 13, en samkvæmt lögum félagsins máttu þeir mest vera 36. Nú eru reglulegir félagsmenn 144 og að auki þeir sem náð hafa sjötugsaldri og bréfafélagar. Félagið heldur vanalega fund seinasta miðvikudag í hverjum vetrarmánuði. Núverandi stjórn (2024) skipa Rúnar Vilhjálmsson forseti,Íris Ellenberger gjaldkeri og Ármann Höskuldsson, Bylgja Hilmarsdóttir, Kristinn Pétur Magnússon og María Óskarsdóttir, meðstjórnendur.

Félagið hefur gefið út yfir 60 rit, Rit Vísindafélags Íslendinga, og er einna mest rit í fjórum bindum um Heklugosið 1947–1948. Seinast gaf Vísindafélagið út Afmælisrit 1918–1998 árið 2000.

Verðlaunasjóður Ásu Guðmundsdóttur Wright

[breyta | breyta frumkóða]

Á vegum Vísindafélagsins er starfræktur Verðlaunasjóður Ásu Guðmundsdóttur Wright, sem stofnaður var á hálfrar aldar afmæli Vísindafélagsins 1. desember 1968. Sjóðurinn veitir árlega viðurkenningu fyrir framúrskarandi vísindastörf, og var fyrst úthlutað úr sjóðnum 1969, þegar Sigurður Nordal hlaut þann heiður.

Formaður stjórnar sjóðsins hefur frá upphafi verið dr. Sturla Friðriksson, og hefur hann ritað bók um stofnanda sjóðsins, Ásu Guðmundsdóttur Wright.