Vinča táknin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Leirtafla, ein af Tărtăria töflunum sem fundust í jörðu nálægt Tărtăria í Rúmeníu

Vinča táknin eru tákn sem finnast á hlutum tengdum Vinča menningunni sem var við lýði í Mið-Evrópu og Suðaustur-Evrópu á nýsteinöld. Fyrstu táknin fundust árið 1875 í fornminjauppgreftri sem Zsófia Torma stýrði í Tordos (núna Turdaș í Rúmeníu). Táknin eru forstig ritmáls, þau eru talin miðla skilaboðum án þess að vera eftirgerð af talmáli og eru elstu tákn sem hafa fundist þeirrar gerðar. Ekki hefur tekist að ráða táknin en tilgátur eru um að þau séu trúartákn eða tákn notuð í viðskiptum.

Fundist hafa meira en þúsund brot með svipuðum táknum í ýmsum fornminjastöðum í Suðaustur-Evrópu, sérstaklega í Grikklandi (Dispilio taflan), Búlgaríu, Rúmeníu, Austur-Ungverjalandi, Moldóva og Suður-Úkrainínu. Flest eru táknin á leirmunum en einnig á styttum og snældusnúðum og öðrum hlutum.

Kép 586.jpg

Árið 1961 fundust í Tărtăria í Rúmeníu steinvölur sem virðast hafa verið hluti af festi eða armbandi og í þær eru greipt tákn sem talin er geta verið letur og/eða tölustafir. Ekki var hægt að aldursgreina Tărtăria tölfurnar sjálfar en hlutir umhverfis fundarstaðinn eru taldir frá fyrir 4000 f. Kr.

Árið 1993 fannst tafla í Dispilio í Grikklandi sem var viðarbútur með ískornum táknum. Aldursgreining sýndi að taflan er frá 7300 ± 40 f.Kr. eða 5260 ± 40 f.Kr. Meginhluti þeirra vinča tákna sem hafa fundist eru frá 4500 og 4000 f.Kr. og Tărtăria töflurnar eru taldar frá 5300 f.Kr. Það þýðir að Vinča táknin eru eldri en myndletur Súmera frá Uruk (Írak nútímans) sem venjulega er talið um þúsund árum yngra. Táknin virðast ekki skyld ritmáli Austurlanda nær og það styður þá tilgátu að vinča táknin og letur Súmera hafi þróast óháð hvort öðru. Þrátt fyrir að mörg tákn hafi fundist þá eru flestir hlutir með svo fáum táknum að það er ólíklegt að þau myndi texta en þó hefur fundist áletrun í Sitovo í Búlgaria sem inniheldur um 50 tákn. Vafi leikur á um aldur hennar. Það er ekki þekkt á hvaða tungumáli sú áletrun er eða hvort hún sé tákn fyrir tungumál.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist