Vesturgata 29

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vesturgata 29 er uppgert timburhús sem stendur á mörkum Vesturgötu og Ægisgötu í Reykjavík. Hendrik Ziemsen kaupmaður reisti húsið árið 1881 en hann lést og ekkja hans flutti í nýbyggt húsið með börn þeirra. Dóttir þeirra Karolina Ziemsen bjó síðan í húsinu ásamt manni sínum Ottó N. Þorlákssyni. Þau misstu húsið árið 1936 og þá keyptu kaupmennirnir Silli og Valdi húsið og ráku þar verslun. Verslunarreksturinn fór fram Ægisgötumegin í húsinu, en í hinum enda þess var rekin Konfektgerðin Fjóla um áratuga skeið. Húsið kom síðar í erfðahlut Þorkels Valdimarssonar en hann gaf húsið til Menningar og fræðslusambands alþýðu árið 1979. MFA hafði makaskipti á húsinu við Alþýðubankann. Árið 1980 keypti Þorsteinn Jónsson húsið af Alþýðubankanum með því skilyrði að því yrði komið í upprunalegt horf.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]