Fara í innihald

Vestrahorn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eyðibýlið Horn undir Vestrahorni
Vestrahorn umlukið skýjum.
Vestrahorn.

Vestrahorn eða Horn (454 m) er fjall á Suð-Austurlandi á nesinu milli Skarðsfjarðar og Papafjarðar. Fjallið stendur milli Hornsvíkur og Papóss við opið úthaf um 10 km fyrir austan Höfn í Hornafirði. Það er eitt af fáum fjöllum á Íslandi sem eru úr gabbró. Gabbró hefur stundum verið kallað horngrýti í hálfkæringi, vegna þess að það finnst við Vestrahorn og Eystrahorn.

Erfið og ógreiðfær gönguleið liggur milli fjalls og fjöru við Vestrahorn. Við rætur fjallsins og í fjörunni er mikið af gabbróhnullungum, þeir stærstu að stærð á við fimm hæða fjölbýlishús. Vestan við Vestrahorn gengur Stokksnes í sjó fram. Þar var eftirlitsstöð varnarliðs Atlantshafsbandalagsins til ársins 2000. Mikið er um sel á skerjunum fyrir utan ströndina við Stokksnes.

Vestrahorn tilheyrir fjalllendinu utan Skarðsdals en það fjalllendi er á náttúruminjaskrá. Það er fagurt fjallendi með margvíslegum bergtegundum og í Vesturhorni finnst bæði granófýr og gabbró.

Jarðfræði fjallsins

[breyta | breyta frumkóða]

Einu sinni var talið að gabbróið í Vestrahorni væri elsta berg á Íslandi. Síðar hefur komið í ljós að gabbróið er innskotsberg inn í eldra basaltbergi. Austast við Vestrahorn eru basaltlög, aðallega úr þóleiíti sem er elsta bergið við Hornafjörð, um 8 milljón ára gamalt. Innan um basaltið liggja innskotslög og stórir innskotahnúðar úr gabbró og granófýri, meðalgrófu og grófkristölluðu djúpbergi. Grófkorna djúpbergið er innskotaberg og yngra en þóleítbasaltið sem umlykur það. Gabbró-granófýrið er um 6,6 milljón ára gamalt.

Sögulegir atburðir við Vestrahorn

[breyta | breyta frumkóða]

Vestrahorn er á mörkum á landnámi landnámsmannanna Þorsteins leggs og Hrollaugs Rögnvaldssonar. Hrolllaugur var sonur jarlsins á Mæri í Noregi og bróðir Göngu-Hrólfs. Hann kom fyrst til hafnar í Reykjavík en fann öndvegissúlur sínar reknar á land við Vestrahorn og settist þar að.

Þann 6. mars 1873 strönduðu nokkrar franskar skútur við Vestrahorn í aftakaveðri.

Mynd af Vestrahorni er á frímerki frá 1991. Teiknari er Þröstur Haraldsson.

  • „Veggöng undir Almannaskarð“ (PDF). Sótt 20. febrúar 2006.