Vegklæðing

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vegklæðing eða klæðing (oft einnig kallað klæðning) er gerð af bundnu slitlagi sem lagt er á vegi. Hún er frábrugðin malbiki að því leyti að hún er svo að segja eins og samþjappað malarslitlag sem er bundið með olíublönduðu asfalti. Klæðing er mikið notuð á þjóðvegum á Íslandi en hlutfall hennar er um 90% af öllu bundnu slitlagi á íslenskum þjóðvegum. Klæðing er upprunin í Noregi á 7. áratug 20. aldar og er þar kölluð Ottadekke þar sem fyrsti vegarkaflinn sem lagður var klæðingu er að finna í Ottadalnum í Noregi.

Útlögn klæðingar[breyta | breyta frumkóða]

Venjan er að þegar klæðing er lögð út er hún lögð með lausamöl í efsta lagi sem haft er á veginum í 3-4 vikur. Á því tímabili er umferðarhraði tekinn niður á kaflanum sem nýlögnin nær yfir vegna hættu á steinkasti sem getur skemmt bílrúður. Að því loknu er lausamölin fjarlægð og eftir stendur fast slitlag sem minnir á malbik en er hrjúfara á yfirborðinu.

Kostnaður og viðhald[breyta | breyta frumkóða]

Sá kostnaður sem fer í útlögn á klæðingu er langt um lægri samanborið við útlögn á malbiki. Sú staðreynd hafði mikið um það að segja að farið var að leggja út klæðingar á Íslandi. Þegar kemur að viðhaldi er ending klæðingar þó um helmingi styttri en endingartími malbiks þannig að nýja klæðingu þarf að að leggja út með jöfnu millibili. Annað vandamál við klæðingar eru tjörublæðingar sem koma fram í snöggum hitabreytingum á vegyfirborði en slíkt getur skemmt bíla sem aka um veginn.

Klæðingar á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Klæðing var fyrst lögð á íslenskan veg í tilraunarskyni árið 1978. Lagðir voru þrír kaflar: Á Þingvallaveg í og við þjóðgarðinn á Þingvöllum og Hringveginn annars vegar undir Hafnarfjalli og hins vegar rétt sunnan Blönduóss. Fram að því hafði verið notuð svokölluð olíumöl í sparnaðarskyni í stað malbiks en viðhaldskostnaður hennar var svipaður og á malbiki. Þótti tilraunin takast vel og næstu árin á eftir var fyrir alvöru farið að leggja klæðingar á Íslandi. Var það upphafið að mikilli útbreiðslu bundins slitlags á vegum en fyrir 1980 voru innan við 300 kílómetrar vega lagðir bundnu slitlagi á Íslandi. Það jókst upp í yfir 2.000 kílómetra 10 árum síðar. Gerðar voru nokkrar tilraunir með útlögn einbreiðs lags af klæðingu í sparnaðarskyni en þeir kaflar voru taldir varasamir og voru smám saman lagðir tvíbreiðri klæðingu þegar fram liðu stundir.