Fara í innihald

Vaxtavextir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Vaxtavextir eru vextir af vöxtum.

Til forna var litið á vaxtavexti sem hið versta okur og voru þeir til að mynda bannaðir í Rómarrétti auk þess að vera lagðir til jafns við guðlast í flestum útbreiddustu trúarbrögðum veraldar, og átti það einnig við í öndverðu á Íslandi eða allt fram að siðaskiptum.[1]

Nú til dags er misjafnt eftir löndum hvort notaðir séu vaxtavextir, en á Íslandi hefur það almennt verið heimilt samkvæmt nútímalöggjöf. Fjallað er um vaxtavexti í 12. gr. núgildandi laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, þar sem segir að sé vaxtatímabil lengra en tólf mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir skuli þeir lagðir við höfuðstól og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð. Ekki má þó bæta vöxtum við höfuðstól oftar en á tólf mánaða fresti, nema um sé að ræða innlánsreikninga lánastofnana (banka).

Vaxtavextir birtast líka í þeirri aðferð sem notuð hefur verið á Íslandi síðan árið 1979 við verðtryggingu lánsfjár, sem felst í því að færa verðbótaþátt vaxta ofan á höfuðstól láns áður en nafnvextir eru reiknaðir af hinum nýja höfuðstól á hverjum gjalddaga, sem jafngildir því að reiknaðir séu grunnvextir af þeim hluta heildarvaxta sem svarar til verðbótaþáttarins. Þetta er þó ekki augljóst af því hvernig vextir eða verðtrygging virka ein og sér, heldur er það sprottið af samspili þeirra þegar bæði koma saman í slíkri útfærslu. Óverðtryggð lán með svokölluðu vaxtagreiðsluþaki geta einnig tekið á sig svipaða eiginleika ef breytilegir vextir þeirra hækka yfir umsamin mörk.[2]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Seðlabanki Íslands. Sérrit 3: Verðtrygging lánsfjármagns og vaxtastefna á Íslandi. Kafli 2: Löggjöf og aðrar réttarheimildir um verðtryggingu og vexti.[óvirkur tengill]
  2. Landsbankinn: Fjárhagur - fjármálablogg, 11. júní 2012. Sigurjón Gunnarsson: Hvernig virkar vaxtagreiðsluþak?[óvirkur tengill]