Vágseiði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vegurinn að Vágseiði

Vágseiði er eiði á eyjunni Suðurey í Færeyjum, vestan við þorpið Vág. Brimasamt er við eiðið en þaðan voru þó stundaðir töluverðir útróðrar áður fyrr.[1] Bátalendingin var í Kleivinni.

Kleivin er þar sem Eiðisvegur endar í dag. Kleivin er náttúruleg lending sem menn hafa betrumbætt. Árið 1890 setti Dánjal við Misá upp spil til að hífa upp bátana. Hlunnarnir voru festir við stóra steina. Árið 1906 var sett upp dráttarbraut á Vágseiði til að draga bátana á land um Múlagjógv sem er aðeins vestar. Lögþingið hafði samþykkt að greiða 2/3 af kostnaði við dráttarbrautina, en þó í mesta lagi 1.800 danskar krónur. Við Kleivina er klöpp sem kallast Heltnarnar og brýtur oft mjög á henni en þá er sjór lygnari við Múlagjógv. Bátar og veiðin voru síðan dregin á land með dráttarbrautinni, hvort fyrir sig. Þegar dráttarbrautin var tekin í notkun reru 22 bátar frá eiðinu..[2] Í fyrstu var notað til dráttarins spil sem knúið var með mannafli, menn gengu í kringum það og sneru því þar til báturinn var kominn upp á land en frá 1930 var notað rafknúið spil. Árið 1929 var sprengt úr eiðinu og steypt undirlag undir viðarstokka svo að enn léttara væri að draga báta upp á land.

Vágseiði og Vágur, séð frá Eggjunum

Naust voru á eiðinu, flest þeirra á vesturhluta þess og voru þau notuð eitthvað fram á 20. öld. Þau síðustu eyðilögðust í stormi þann 14. janúar 1989. Þann dag var mikið brim sem skolaði naustunum burtu. Sum þeirra voru þá nýuppgerð. Öllum bátum nema einum var bjargað, en þessi eini bátur brotnaði í tvennt eftir að grafa féll á hann. Grafan mölbraut einnig naust áður en hún fór í sjóinn.[3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Andreasen, Poul. Vágs kommuna 1873 - 1929. Vágar, 2000. bls: 46
  2. Andreasen, PoulElektrisitetsverkið í Botni. egið forlag, Þórshöfn, 1996.
  3. Sudurras1.com, 20 ár síðan neystini á Eiðinum fórust[óvirkur tengill]