Tungl Mars
Mars hefur tvö tungl, Fóbos og Deimos. Asaph Hall fann þau bæði árið 1877. Tunglin heita eftir persónum úr grískri goðafræði, Fóbos (ótti) og Deimos (ofsahræðsla/kvíði) sem fylgdu föður sínum Ares í bardaga. Ares var grísk hliðstæða rómverska stríðsguðsins Mars. Deildar meiningar eru um uppruna tunglanna. Ein kenning gerir ráð fyrir því að þau séu smástirni sem Mars hefur fangað en hvað Fóbos varðar benda athuganir á efnasamsetngu og innri gerð hans mögulega frekar til þess að hann sé myndaður úr sama efni og Mars sem gæti hafa kastast út í geim við árekstur Mars við stórt reikistirni.
Frá sjónarhóli á miðbaugi Mars þá lítur fullt tungl Fóbosar út fyrir um þriðjungur af þvermáli fulls tungls á himnium á jörðinni. Sýndarbreidd hans er á milli 8' (við sjóndeildarhring) og 12' (á hvirfilpunkti). Því fjær sem farið er frá miðbaugi Mars, þeim mun minni myndi Fóbós líta út fyrir að vera og frá heimskautum Mars sést hann alls ekki vegna þess að hann nær þar aldrei upp fyrir sjóndeildarhring vegna nálægðar hans við reikistjörnuna. Deimos líkist hins vegar aðeins bjartri stjörnu á himininum, sýndarþvermál hans frá Mars er örlítið meira en sýndarþvermál Venusar frá jörðinni séð eða um 2'. Sýndarþvermál sólarinnar frá Mars er hins vegar um 21' þannig að það verða engir almyrkvar á sólu þar sem tunglin eru of lítil til þess að geta falið alla sólarskífuna. tunglmyrkvar eru á hinn bóginn mjög algengir og eiga sér stað á næstum því hverri nóttu. Þegar tunglin ganga fyrir sólina er í raun frekar um að ræða þvergöngur en mykrva.
Hreyfingar tunglanna á himninum eru afar ólíkar því sem við eigum að venjast með jarðarmánann. Fóbos gengur einn hring um Mars á aðeins 7,66 klukkustundum. Það er mun skemmri tími en einn sólarhringur á Mars. Fóbos rís í vestri og sest í austri og rís á nýjan leik á aðeins 11 klukkustundum. Deimos gengur hins vegar einn hring á sporbaugi sínum á rúmum 30 tímum. Það þýðir að hann gengur aðeins lítillega hraðar en snúningur Mars um sjálfan sig. Deimos gengur því mjög hægt yfir himininn, hann rís í austri, gengur yfir himinninn á 2,7 sólarhringum og sest í vestri.
Tunglin hafa bæði bundinn möndulsnúning og snúa því ávallt sömu hliðinni að Mars. Þar sem Fóbos gengur hraðar um reikistjörnuna en hún snýst um sjálfa sig þá eru flóðkraftar smátt og smátt að draga hann innar. Óhjákvæmilega kemur að því að sporbaugur Fóbosar mun þrengjast svo mikið að hann gengur inn fyrir Roche-mörkin þar sem þyngdarkraftar Mars munu tæta tunglið í sundur.[1] Gígaraðir á yfirborði Mars benda til þess að hann hafi áður haft fleiri tungl hlotið hafi þau örlög og að brot þeirra hafi fallið niður á yfirborð Mars. Deimos er á hinn bóginn nógu fjarri Mars til þess að hans sporbaugur er að hækka fremur en lækka sem er svipuð þróun og á sér stað með tungl jarðarinnar.
Nöfn | mynd | þvermál (km) | massi (kg) | hálfur langás (km) | umferðartími (h) | meðaltími milli tunglupprása (k, s) | |
---|---|---|---|---|---|---|---|
Mars I | Fóbos | 22,2 km (27×21,6×18,8) | 1,08 × 1016 | 9.377 km | 7,66 | 11,12 k (0.463 s) | |
Mars II | Deimos | 12,6 km (10×12×16) | 2 × 1015 | 23.460 km | 30,35 | 131 k (5,44 s) |