Fara í innihald

Trúfélög múslima

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
"Í nafni Guðs, hins náðuga, hins miskunnsama" í kalligrafískri skrift

Innan íslam eru fjölmörg trúfélög sem hafa mismunandi áherslur og túlkanir á atriðum trúarinnar þó þau hafi sömu grundvallarsýn. Fjölmennustu trúfélögin eru súnní og sjía. Í báðum trúfélögunum eru fylgjendur súfisma sem er eins konar dulhyggjustefna innan íslam.

Súnní er stæsti trúarhópurinn (80% - 85% allra múslima eru sunní). Á arabísku þýðir as-Sunnah bókstaflega lögmál eða stígur; það er einnig notað sem hugtak yfir ummæli og gerðir Múhameðs spámanns.

Fylgjendur súnní álíta Múhameð spámann og nánast fullkominn mann og þess vegna sé skylda að fylgja orðum hans og gerðum eins náið og hægt er. Kóraninn segir að spámaðurinn Múhameð sé góð fyrirmynd. Vegna þessa er sagnahefðin sem nefnd er Hadith, þar sem þessi orð og gerðir eru geymd, höfuðstoð í trú súnní-múslima.

Sjía-múslimar, næststærsta trúfélagið, leggja mikla áherslu á hverning túlka skuli trúarstöðu fyrstu þriggja kalífanna. Arabíska orðið Shi'a er stytting á "shi'at 'Ali" sem þýðir „fylgismenn Alís“. Sjítar halda upp á aðra sagnahefð (hadith) en súnnítar og hafa eigin lagahefð. Í sjía hafa ímamar mikil völd til að túlka trúna og lögin. Flestir sjía-múslimar búa í Íran, Írak, Bahrain og Líbanon. Minnihlutahópar (um það bil 15 milljónir) sjía-múslima eru nefndir Ísmailítar. Stærsti hluti þeirra lítur á Aga Khan sem leiðtoga sinn.

Vahabítar er fámennari og nýrri trúflokkur innan súnní. Þeir kalla sjálfa sig Salafi. Vahabítar eru mjög strangtrúaðir og túlka Kóraninn og hefðirnar bókstaflega. Þeir álíta sjía-múslima (og sumir einning aðra sunníta) trúvillinga. Vahabítismi er opinber trú í Sádi-Arabíu og hefur haft mikil áhrif á múslima um allan heim, ekki síst vegna þess að þeir stjórna hinum heilögu stöðum múslima, Mekka og Medína.

Súdanskir súfistar

Súfismi er dulhyggjustefna sem hefur fylgjendur bæði meðal súnníta og shíta. Súfistar álíta að það að fylgja íslömskum lögum og reglum (eða fiqh) sé einungis fyrsta skrefið á leiðinni að fullkominni undirgefni. Súfistar leitast við að öðlast yfirnáttúrlega, dulræna reynslu með íhugun og dansi.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hver er munurinn á sunní og shíta múslímum?“. Vísindavefurinn.