Fara í innihald

Torfusamtökin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Torfusamtökin eru félag sem berst fyrir húsvernd og auknum skilningi á gildi byggingararfleifðar Íslands fyrir umhverfi og mannlíf.

Samtökin voru stofnuð á fjölmennum fundi í Sigtúni 1. desember 1972 í þeim tilgangi að knýja á um verndun Bernhöftstorfunnar, húsalengju ofan við Ingólfsbrekku milli Lækjargötu og Skólastrætis í miðborg Reykjavíkur. Þá hafði í nokkur ár staðið til að rífa húsin til að rýma fyrir nýrri stjórnarráðsbyggingu. Helsti hvatinn að stofnun samtakanna kom frá Arkitektafélagi Íslands, Bandalagi íslenskra listamanna og ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka. Þór Magnússon, þjóðminjavörður og Páll Líndal, borgarlögmaður, voru meðal þeirra sem fluttu ávörp á útifundinum 1972 sem leiddi til stofnunar samtakanna. Árið eftir tók hópur sig til og málaði húsin til að sýna fram á hversu mikil prýði væri að þeim ef þau væru gerð upp. Árið 1977 gaus upp eldur í hluta af húsunum nær Bankastræti og brunnu sum þeirra til grunna. Tveimur árum síðar féllst Ragnar Arnalds þáverandi menntamálaráðherra á að friða húsalengjuna og Vilmundur Gylfason, nýr menntamálaráðherra, gerði samning við Torfusamtökin sama ár um leigu á húsunum til 12 ára gegn því að þau ábyrgðust þau og stæðu fyrir endurreisn þeirra. Snemma árs 1980 hófst endurreisn gömlu húsanna og gerð nýbygginga í stað þeirra húsa sem brunnu á vegum Torfusamtakanna. Samtökin höfðu umsjón með húsunum til 1985 þegar sjálfseignarstofnunin Minjavernd var stofnuð með aðkomu samtakanna, Þjóðminjasafnsins og fjármálaráðuneytis. Eftir 1985 var hlutverk Torfusamtakanna, auk aðildar að Minjavernd, einkum margs konar fræðslustarfsemi, svo sem með bókaútgáfu, ráðstefnuhaldi og baráttu fyrir sjónarmiðum húsfriðunar. Árið 2000 var Minjavernd breytt í hlutafélag og áttu Torfusamtökin þá ekki lengur beina aðild að félaginu. Formenn Torfusamtakanna frá upphafi hafa verið Guðrún Jónsdóttir 1972-1980, Þorsteinn Bergsson 1980-1982, Hallgrímur Guðmundsson 1982-1985, Hjörleifur Stefánsson 1985-1988, Guðjón Friðriksson 1988-1996, Páll V. Bjarnason 1996-2006 og Snorri Freyr Hilmarsson frá 2006.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.