Fara í innihald

Teodoro Obiang Nguema Mbasogo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Teodoro Obiang Nguema Mbasogo
Obiang árið 2014.
Forseti Miðbaugs-Gíneu
Núverandi
Tók við embætti
3. ágúst 1979
Forsætisráðherra
VaraforsetiFlorencio Mayé Elá
Vicente Ehate Tomi
Teodoro Nguema
ForveriFrancisco Macías Nguema
Persónulegar upplýsingar
Fæddur5. júní 1942 (1942-06-05) (82 ára)
Acoacán, Spænsku Gíneu, (nú Miðbaugs-Gíneu)
ÞjóðerniMiðbaugsgíneskur
StjórnmálaflokkurLýðræðisflokkurinn
MakiConstancia Mangue ​(g. 1968)
TrúarbrögðKaþólskur
BörnTeodoro Nguema

Teodoro Obiang Nguema Mbasogo (f. 5. júní 1942) er miðbaugsgíneskur stjórnmálamaður og einræðisherra sem hefur verið forseti Miðbaugs-Gíneu frá árinu 1979. Hann steypti móðurbróður sínum, forsetanum Francisco Macías Nguema, af stóli í herforingjabyltingu í ágúst 1979 og hefur frá tíunda áratuginum stýrt uppbyggingu landsins sem mikilvægs olíuframleiðsluríkis. Obiang hefur setið næstlengst í embætti af öllum núverandi þjóðarleiðtogum heims sem ekki eru konungbornir.[1] Stjórn Obiangs hefur verið sökuð um stórtæk mannréttindabrot, spillingu og valdníðslu. Undir stjórn Obiangs ríkir flokksræði í landinu þar sem stjórnmálaflokkur hans, Lýðræðisflokkur Miðbaugs-Gíneu (PDGE), hefur tögl og hagldir á nánast öllu ríkisvaldi. Stjórnarskráin veitir Obiang nánast ótakmarkað vald og heimilar honum meðal annars að stýra landinu með stjórnartilskipunum.

Æska og uppvöxtur

[breyta | breyta frumkóða]

Obiang er fæddur í bænum Acoacán í héraðinu Wele-Nzas og er sá þriðji úr hópi sex systkina. Hann hóf skólagöngu sína átta ára gamall í ríkisreknum grunnskóla í bænum Mongomo og síðan í skólanum Cardinal de Cisneros í Ebebiyin. Árið 1963 gekk hann í Hernaðarháskólann í Saragossa á Spáni. Hann sérhæfði sig þar í stjórn herfarartækja.

Hernaðarferill og upphaf stjórnmálaferilsins

[breyta | breyta frumkóða]

Obiang hóf hernaðarferil sinn árið 1965 í heimavarnarliði Miðbaugs-Gíneu í Mikomeseng.

Árið 1968 var Francisco Macías Nguema, frændi Obiangs, kjörinn fyrsti forseti sjálfstæða lýðveldisins Miðbaugs-Gíneu.[2][3] Hann lýsti sjálfan sig forseta til lífstíðar árið 1972.[4][3] Macías gerði Obiang að herforingja og fól honum stjórn hernaðarumdæma á höfuðborgarsvæði landsins. Næsta ár var Obiang hækkaður í tign þegar Macías útnefndi hann varnarmálaráðherra og birgða- og áætlanaráðherra.

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Forseti Miðbaugs-Gíneu

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1975 var Obiang fólgin yfirstjórn miðbaugsgíneska hersins og árið 1979 var hann útnefndur varahernaðarmálaráðherra. Næsta ár leiddi Obiang valdarán gegn Francisco Macías Nguema, sem hann sakaði um kerfisbundin mannréttindabrot.[3] Obiang tók fyrst við völdum sem forseti hernaðarráðs en var síðan formlega útnefndur forseti lýðveldisins árið 1982.

Þann 22. ágúst 1982 fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá þar sem 95,8 % kjósenda lýstu sig fylgjandi stjórnarskrárbreytingum samkvæmt opinberum niðurstöðum. Obiang var kjörinn forseti í kosningum árið 1989 (með 99 % atkvæða) og endurkjörinn árin 1996 (97,8 %), 2002 (97,1 %), 2009 (95,4 %) og 2016 (93,5 %).[5] Hann var síðast endurkjörinn árið 2022 með meintum 99 prósentum atkvæða.[6]

Obiang var forseti Afríkusambandsins frá febrúar 2011 til janúar 2012.[7]

Þann 28. desember 2019 tilkynnti Obiang ásamt Alassane Ouattara, forseta Fílabeinsstrandarinnar, að þeir hefðu rætt saman um umbætur á CFA-frankanum í Efnahagsbandalagi Vestur-Afríkuríkja. Obiang lýsti því yfir að hann vildi koma á sams konar efnahagsumbótum og höfðu verið framkvæmdar í Efnahagsbandalagi Mið-Afríkuríkja og lét þau orð falla að CFA-frankinn væri úreltur.[8]

Þann 5. júní 2020 fagnaði Teodoro Obiang Nguema Mbasogo 78 ára afmæli sínu. Hann hefur setið við völd í rúm 40 ár og er í dag einn elsti sitjandi þjóðhöfðingi heims og þaulsetnasti sitjandi forseti í heimi.[3]

Stjórnarhættir og persónudýrkun

[breyta | breyta frumkóða]

Í júlí árið 2003 kallaði ríkisútvarp Miðbaugs-Gíneu Obiang „Guð landsins“ og lýsti yfir að hann hefði „almætti yfir öllum mönnum og hlutum“. Jafnframt var staðhæft að forsetinn væri í „varanlegu sambandi við Drottin“ og gæti „ákveðið að drepa án þess að vera dreginn til ábyrgðar og án þess að fara til helvítis“. Obiang hafði sjálfur gefið frá sér svipaðar staðhæfingar árið 1993. Macías, forveri Obiangs, hafði einnig lýst yfir eigin guðdómleika.[9]

Obiang hefur hvatt til persónudýrkunar á sjálfum sér með því að fyrirskipa að öllum opinberum ræðum ljúki með heillaóskum til forsetans frekar en til þjóðarinnar í heild sinni. Sérstaka forsetabústaði er að finna í mörgum opinberum byggingum og í mörgum bæjum og borgum eru götur nefndar til heiðurs valdaráni Obiangs gegn Macías. Margir landsmenn klæðast jafnframt fötum með andlitsmyndum af Obiang.[10][11]

Líkt og forveri sinn og aðrir afrískir einræðisherrar á borð við Idi Amin og Mobutu Sese Seko hefur Obiang sæmt sjálfan sig ýmsum háfleygum heiðurstitlum. Þar á meðal hefur hann kallað sig „herramann hinna miklu eyja Bioko, Annobón og Río Muni“.[12] Obiang gengur jafnframt undir viðurnefninu El Jefe (stjórinn eða leiðtoginn).[13]

Árið 2008 kallaði bandaríski blaðamaðurinn Peter Maass Obiang „versta einræðisherra Afríku“ og taldi hann verri en Robert Mugabe í Simbabve. Við rannsóknir sínar fyrir bók um olíuuppsveiflu Miðbaugs-Gíneu árið 2004 rifjaði Maas upp að enginn landsmaður hefði nokkurn tímann yrt á hann á götum úti. Hann sagðist hvergi hafa séð undirgefnari íbúa nema í Norður-Kóreu.[14]

Í viðtali á sjónvarpsstöðinni CNN í október 2012 spurði Christiane Amanpour Obiang hvort hann hygðist láta af völdum við lok þáverandi kjörtímabils hans (2009–2016) þar sem hann hafði þá verið endurkjörinn að minnsta kosti fjórum sinnum. Obiang hafnaði því afdráttarlaust að hann hygðist láta af völdum þrátt fyrir að stjórnarskráin sem tekin var upp í landinu árið 2011 takmarki fjölda kjörtímabila sem forsetinn má gegna.[15]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Equatorial Guinea: Palace in the jungle: Ordinary folk see none of their country's riches“. The Economist. 12. mars 2016. Sótt 27. febrúar 2021.
  2. Cécile Bertrand (8. mars 2019). „Guinée équatoriale: les quarante ans du règne de Teodoro Obiang, l'indétrônable président“. Le Figaro. Sótt 28. febrúar 2021.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 Michel Arseneault (3. ágúst 2019). „Quand Teodoro Obiang s'emparait du pouvoir par un putsch en Guinée équatoriale“. rfi.fr. RFI. Sótt 28. febrúar 2021.
  4. „Guinée équatoriale – Jeune Afrique“. Jeune Afrique. Sótt 28. febrúar 2021.
  5. „Le président Obiang Nguema réélu“. www.ouest-france.fr..
  6. Bjarki Sigurðsson (22. nóvember 2022). „43 ár á valdastóli og með 99 prósent atkvæða“. Vísir. Sótt 22. nóvember 2022.
  7. « Teodoro Obiang Nguema devient le nouveau président de l'Union africaine », Jeune Afrique, 30. janúar 2011.
  8. „Guinée équatoriale: le président Obiang en faveur de la réforme du franc CFA“. RFI.fr. RFI. 29. desember 2019. Sótt 28. febrúar 2021.
  9. „Equatorial Guinea's 'God'. BBC. 26. júlí 2003. Sótt 3. mars 2021.
  10. Maass, Peter (2005) "A Touch of Crude" Mother Jones 30 (1): pp. 48–89
  11. Silverstein, Ken (2010) "Saturday Lagniappe: UNESCO for Sale: Dictators allowed to buy their own prizes, for the right price" Petroleumworld, upphaflega birt á Harpers Magazine, 2. júní 2010, geymt á Freezepage
  12. Kabanda (3. október 2010) "Money for good causes: does the source matter?" Sunday Times (Rúanda), skoðað 2. mars 2021
  13. Staff (28 September 2010) "Africa's Worst Dictators: Teodoro Obiang Nguema Mbasogo" Geymt 23 ágúst 2011 í Wayback Machine MSN News (South Africa), geymt á Freezepage
  14. Maass, Peter (24. júní 2008). „Who's Africa's Worst Dictator?“. Slate. The Washington Post Company. Sótt 30. júní 2008. „But Mugabe may not be Africa's worst. That prize arguably goes to Teodoro Obiang, the ruler of Equatorial Guinea“
  15. „Interview with President Teodoro Obiang of Equatorial Guinea“. Transcripts.cnn.com.


Fyrirrennari:
Francisco Macías Nguema
Forseti Miðbaugs-Gíneu
(3. ágúst 1979 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti