Sólveig Anspach

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sólveig Anspach
Mynd af Sólveigu Anspach eftir Önnu Rouker.
Fædd8. desember 1960
Dáin7. ágúst 2015 (54 ára)
ÞjóðerniÍslensk og frönsk
MenntunFÉMIS

Sólveig Anspach (8. desember 1960 – 7. ágúst 2015)[1] var íslensk-franskur kvikmyndaleikstjóri og handritshöfundur. Foreldrar hennar voru íslenski arkitektinn Högna Sigurðardóttir og hinn þýsk-rúmenski Gerald Anspach. Sólveig bjó og starfaði mestalla ævi sína í Frakklandi.[2] Hún nam heimspeki og klíníska sálfræði í París, gekk síðan í kvikmyndaskólann La Fémis og útskrifaðist þaðan með gráðu í leikstjórn árið 1989. Kvikmynd hennar, Stormviðri, var sýnd á Kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2003.[3] Sólveig lést úr brjóstakrabbameini þann 7. ágúst árið 2015, þá 54 ára.[4]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Faðir Sólveigar, Gerald Anspach, var flóttamaður frá Þýskalandi nasismans sem flutti ásamt fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna.[1] Þegar hann var 18 ára skráði hann sig í bandaríska herinn og tók þátt í innrásinni í Normandí árið 1944.[5] Gerald hlaut bandarískan ríkisborgararétt og hlaut styrk til náms sem hann ákvað að nýta sér til að ganga í Beaux-Arts-skólann í París. Í París kynntist hann Högnu Sigurðardóttir, nemanda í arkitektúr sem varð síðar ein af þekktari íslenskum arkitektum.[5] Gerald og Högna áttu eftir að eignast tvær dætur: Sólveigu og Þórunni.[5]

Sólveig Anspach fæddist á Íslandi en nam sálfræði í París. Hún hlaut inngöngu í kvikmyndaháskólann FÉMIS eftir þrjár umsóknir. Hún útskrifaðist þaðan með gráðu í kvikmyndaleikstjórn árið 1989.

Á tíunda áratugnum settist Sólveig að í Seine-Saint-Denis á mörkum Montreuil og Bagnolet.[6] Hún hreifst mjög að þessum slóðum vegna fjölbreytninnar sem þar var að finna.

Árið 1994, á meðan Sólveig var ófrísk af fyrsta barni sínu, greindist hún með brjóstakrabbamein. Hún átti í erfiðri baráttu við sjúkdóminn en lifði af og fæddi dótturina Clöru. Fyrsta kvikmynd Sólveigar í fullri lengd, Haut les cœurs!, var gerð með sjálfsævisögulegu ívafi og fjallaði um konu sem greinist með brjóstakrabbamein á meðan hún er ólétt.

Árið 2001 hlaut Sólveig François-Chalais-verðlaunin í keppninni Quinzaine des Réalisateurs í Cannes[7] fyrir heimildamyndina Made in the USA, sem fjallaði um dauðarefsingar í Bandaríkjunum.[8][1][9]

Kvikmyndin Stormviðri var sýnd meðal mynda í verðlaunaflokkinum Un certain regard á Cannes-kvikmyndahátíðinni árið 2003.[10] Í myndinni stillti Sólveig upp tveimur „yfirþyrmandi persónum“ sem leiknar voru af Élodie Bouchez og Diddu Jónsdóttur.[11] Þær Didda áttu eftir að vinna saman að þremur kvikmyndum sem mynda saman þríleik; Skrapp út (2007), Queen of Montreuil (2012) og Sundáhrifin (2015).[1]

Árið 2008 leikstýrði Sólveig franskri sjónvarpsmynd fyrir France 2 um byltingarkonuna Louise Michel þar sem Sylvie Testud lék aðalhlutverkið.[1] Í myndinni Lulu femme nue starfaði Sólveig í annað sinn með Karin Viard, sem hafði verið aðalleikonan í fyrstu mynd Sólveigar, Haut les cœurs !.[12]

Sólveig lést þann 7. ágúst árið 2015 í Drôme eftir að krabbamein hennar tók sig upp að nýju.[1] Tveimur árum eftir dauða sinn vann Sólveig Cesar-verðlaunin fyrir besta frumsamda handritið með kvikmyndinni Sundáhrifunum.[13]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 „La cinéaste Solveig Anspach, auteur de " Haut les cœurs ! " et " Lulu femme nue ", est morte“. Le Monde.
  2. Laurent Carpentier (21. janúar 2014). „Sólveig Anspach filme le bonheur en urgence“. Le Monde. Sótt 15. apríl 2015.
  3. „Festival de Cannes: Stormy Weather“. festival-cannes.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 10 október 2012. Sótt 8. nóvember 2009.
  4. „Sólveig Anspach Dies: French Filmmaker Was 54“. Deadline.com. 9. ágúst 2015. Sótt 9. ágúst 2015.
  5. 5,0 5,1 5,2 „Sólveig Anspach filme le bonheur en urgence“ (franska). Le Monde. 21. janúar 2014. Sótt 15. október 2020.
  6. Solveig Anspach, invitée de Rebecca Manzoni pour son émission Eclectik du 17 mars 2013.
  7. Association prix François Chalais – Cannes 2001 – Made in the USA Geymt 2 október 2013 í Wayback Machine.
  8. Made in the USA – Sélections en festivals, unifrance.org.
  9. Jean-Marie Durand (22.maí 2001). „Cannes 2001 : Made in the USA de Sólveig Anspach et Cindy Babski“. lesinrocks.com. Sótt 15. október 2020.
  10. „Stormy Weather“. Kvikmyndahátíðin í Cannes. Sótt 15. október 2020.
  11. „Le Quotidien 2003 - 19 mai - Un Certain Regard : Stormy weather“. 20. ágúst 2003. Sótt 15. október 2020.
  12. Louis Guichard (22. nóvember 2014). „Lulu, femme nue“. Télérama. Sótt 15. október 2020.
  13. „Collège Sólveig Anspach“ (franska). Sótt 15. október 2020.
  Þetta æviágrip sem tengist kvikmyndum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.