Fara í innihald

Louise Michel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Louise Michel
Louise Michel árið 1880.
Fædd29. maí 1830
Dáin9. janúar 1905 (74 ára)
StörfKennari, ljóðskáld, blaðamaður, byltingarsinni, hjúkrunarkona
Undirskrift

Clémence-Louise Michel (29. maí 18309. janúar 1905), yfirleitt kölluð Louise Michel og stundum þekkt undir viðurnefninu „Enjolras“, var franskur skólakennari, stjórnleysingi og femínískur hugsuður sem lék lykilhlutverk í Parísarkommúnunni árið 1871. Hún var sú fyrsta sem dró hinn svarta fána anarkismans að húni og gerði hann að vinsælli táknmynd stjórnleysisstefnunnar. Í íslenskum samtímaheimildum var henni líkt við „eins konar Hervör eða valkyrju byltingarinnar“.[1]

Michel hafði mikinn áhuga á menntun frá unga aldri og hafði unnið sem kennari í nokkur ár áður en hún flutti til Parísar árið 1856. Hún var farin að láta á sér bera á bókmennta- og stjórnmálasviðinu þegar hún var 26 ára og hafði kynnst mörgum helstu byltingarsinnum Parísar þegar kom á sjöunda áratuginn. Árið 1871 tók hún virkan þátt í Parísarkommúnunni, bæði í stofnun og vörn hennar. Stuttu eftir að uppreisn kommúnumannanna hófst í París bauðst hún til að ferðast til Versala og myrða Adolphe Thiers, nýkjörinn leiðtoga þriðja franska lýðveldisins, en áætlun hennar var ekki fylgt eftir.[2]

Frönsk stjórnvöld handsömuðu Michel í maí við endurheimt höfuðborgarinnar og sendu hana síðan í útlegð til Nýju-Kaledóníu. Í útlegðinni snerist Michel til stjórnleysishyggju og tók árið 1878 þátt í uppreisn frumbyggja eyjanna gegn frönskum nýlenduyfirráðum.[3] Hún sneri aftur til Frakklands árið 1880 og tók þátt í fjölmörgum mótmælum og fjöldasamkomum verkamannastéttanna. Yfirvöld fylgdust grannt með henni og fangelsuðu hana mörgum sinnum en hún hélt áfram pólitískum baráttum sínum allt fram til dauðadags árið 1905.

Hún er enn vel þekkt meðal byltingarsinna og stjórnleysingja. Íslensk-franski kvikmyndaleikstjórinn Sólveig Anspach leikstýrði sjónvarpsmynd um Michel árið 2010.[4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Útlendar frjettir frá Júni 1880 til vordaga 1881“. Skírnir. 1. janúar 1881. Sótt 20. september 2018.
  2. Fernand Planche, La vie ardente et intrépide de Louise Michel, Édition Tops-H. Trinquier, 2005.
  3. Jean Maitron, Dictionnaire biographique du Mouvement ouvrier français, Les Éditions de l'Atelier, 1997, article « Louise Michel Geymt 20 febrúar 2009 í Wayback Machine ».
  4. „Naut þess að vinna hérlendis“. mbl.is. 16. janúar 2010. Sótt 29. október 2018.