Svanfríður Jónasdóttir
Svanfríður Jónasdóttir | |||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Alþingismaður | |||||||||||||
| |||||||||||||
Persónulegar upplýsingar | |||||||||||||
Fædd | 10. nóvember 1951 Keflavík | ||||||||||||
Æviágrip á vef Alþingis |
Svanfríður Inga Jónasdóttir (f. 10. nóvember 1951) er íslenskur kennari, fyrrverandi alþingismaður og bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð.
Hún fæddist í Keflavík og foreldrar hennar voru Jónas Sigurbjörnsson (1928 - 1955) vélstjóri og kona hans Elín Jakobsdóttir (1932 - 1996) verkakona. Eiginmaður Svanfríðar er Jóhann Antonsson viðskiptafræðingur og á hún þrjá syni.
Ævi og störf
[breyta | breyta frumkóða]Svanfríður lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands árið 1972 og stúdentsprófi frá sama skóla ári síðar. Hún lauk diploma námi frá Kennaraháskóla Íslands árið 2004, mastersnámi í kennslufræðum frá sama skóla árið 2005 og nam hagnýta jafnréttisfræði við Háskóla Íslands árið 2014. Hún var kennari við Grunnskólann í Dalvík frá 1974-1988 og 1991-1995 og aðstoðarskólastjóri við sama skóla 1992-1993. Hún stofnaði saumaverkstæðið Gerplu á Dalvík árið 1986 og tók þátt í rekstri þess til 1988. Svanfríður var aðstoðarmaður Ólafs Ragnars Grímssonar fjármálaráðherra frá 1988-1991, var varaformaður Alþýðubandalagsins frá 1987-1989 og tók tvisvar sæti á þingi sem varaþingmaður flokksins árin 1984 og 1990. Svanfríður var bæjarfulltrúi á Dalvík frá 1982-1990 og 1994-1998.
Árið 1995 var hún kosin á þing fyrir Þjóðvaka í Norðurlandskjördæmi eystra en gekk síðar til liðs við Samfylkinguna. Hún sat á þingi til ársins 2003. Að lokinni þingmennsku tók hún þátt í uppbyggingu námsvers á Dalvík á árunum 2004-2006, var blaðamaður frá 2005-2006 og bæjarstjóri/sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð 2006-2014. Árið 2015 stofnaði hún ráðgjafafyrirtækið Ráðrík ehf. [1]
Svanfríður hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf að sveitarstjórnarmálum árið 2014.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Alþingi, Æviágrip - Svanfríður Jónasdóttir (skoðað 15. desember 2020)