Stóra-Dímun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Stóra Dímun)
Kort af Stóru-Dímun
Stóra-Dímun á frímerki

Stóra-Dímun (færeyska: Stóra Dímun) er eyja í Færeyjum. Eyjan er 2.5 km² að stærð og umgirt bröttum hömrum á alla vegu. Hún er talin einna minnst aðgengileg allra byggðra eyja í Evrópu. Aðeins er unnt að lenda við hana í kyrru veðri. Uppganga er aðeins möguleg á einum stað og er alls ekki hættulaus. En frá 1985 hefur flugfélagið Atlantic Airways flogið þyrlu til eyjarinnar þrisvar í viku með vörur og farþega.

Íbúarnir voru átta 1. janúar 2010 og bjuggu allir á eina bóndabænum á eynni, Dímun. Núverandi bóndi er sjöundi ættliður sömu fjölskyldu sem þar býr. Stóra-Dímun tilheyrir nú sveitarfélaginu Skúfey og hefur aldrei verið sjálfstætt sveitarfélag vegna fámennis. Dímun hefur þó alltaf verið álitið gott býli, bæði til sauðfjárbúskapar og ekki síður vegna mikillar fuglatekju, en árlega verpa um 130.000 sjófuglapör á eynni. Síðasti geirfuglinn í Færeyjum sást í eynni 1808.

Byggð hefur verið á Stóru-Dímun síðan á landnámsöld og í Færeyinga sögu segir frá því að bræðurnir Brestir og Beinir Sigmundssynir, sem bjuggu á Skúfey, áttu annað bú á Stóru-Dímun og voru drepnir þar. Sigmundur Brestisson hefndi þeirra síðar. Eyjan var háskalegur bústaður og menn hröpuðu oft í björgunum, ýmist við fæðuöflun eða í uppgöngunni, og frá því í byrjun 19. aldar þar til snemma á 20. öld er vitað um 17 menn sem létu þannig lífið. Einn þeirra var sóknarpresturinn, sem hrapaði til bana þegar hann var að fara niður í bát sinn eftir messu í eynni 1874. Kirkja var í eynni fram til 1922 en var þá lögð af og er nú rústir einar.