Fara í innihald

Sigmundur Brestisson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þessi steinn í kirkjugarðinum á Skúfey er sagður legsteinn Sigmundar Brestissonar. Engin áletrun er á honum en í hann er höggvið krossmark.

Sigmundur Brestisson (9611005) var færeyskur bóndi og víkingahöfðingi sem kristnaði Færeyjar um árið 999 að boði Ólafs konungs Tryggvasonar.

Sigmundur var fæddur á Skúfey, sonur Brestis Sigmundssonar, sem var ásamt Beini bróður sínum höfðingi yfir hálfum Færeyjum, og Cecilíu konu hans eða frillu. Þegar hann var sjö ára felldi höfðinginn Þrándur í Götu þá bræður og lagði undir sig allar Færeyjar. Hann sendi Sigmund og Þóri son Beinis til Noregs í þeirri von að sjá þá aldrei framar. Þegar þeir frændur voru fullvaxnir gerðust þeir hirðmenn Hákonar Hlaðajarls, sem sendi þá í víkingaferðir til Svíþjóðar og Garðaríkis, þar sem þeir herjuðu og rændu og söfnuðu fé.

Þeir sneru svo heim til Færeyja með tvö skip og herlið til að hefna feðra sinna. Þeir drápu Össur Hafgrímsson, fósturson Þrándar, en féllust svo á að láta Hákon jarl dæma í málum sínum. Jarl dæmdi að Þrándur skyldi gjalda þeim stórfé í manngjöld og missa forráð yfir Færeyjum. Sigmundur skyldi ráða hálfum eyjunum en hinn helminginn skyldi jarl sjálfur hafa. Með því að fallast á þetta samþykkti Sigmundur í raun að eyjarnar féllu undir norsk yfirráð. Þrándur neyddist til að samþykkja þetta.

Sigmundur settist að á föðurleifð sinni í Skúfey og næstu árin var helsti höfðingi Færeyja. Þegar Ólafur Tryggvason var orðinn konungur í Noregi boðaði hann Sigmund á sinn fund og lagði fyrir hann að taka kristni og fara síðan og kristna Færeyjar. Sigmundur varð við því, lét skírast ásamt mönnum sínum og hélt síðan til Færeyja með presta í föruneyti sínu, stefndi Færeyingum á þing og vildi kristna þá en að ráðum Þrándar tóku þeir því illa og varð honum ekkert ágengt.

Vorið eftir (líklega árið 999) fór Sigmundur með menn sína til Austureyjar og umkringdu þeir bæinn í Götu, náðu Þrándi og þvinguðu hann til að taka skírn. Síðan fór Sigmundur um eyjarnar með Þránd og þvingaði menn til að láta skírast en þeir þorðu ekki að neita þegar þeir sáu að Þrándur var fangi Sigmundar.

Þrándur hugði á hefndir fyrir meðferðina og árið 1005 kom hann í Skúfey að næturlagi og lagði eld að bæ Sigmundar en hann slapp út um jarðgöng ásamt Þóri frænda sínum og húskarlinum Einari. Þeir voru eltir um eyna en stukku fyrir björg og freistuðu þess að synda til Suðureyjar. Einar og Þórir gáfust upp og króknuðu eða drukknuðu á sundinu. Sigmundur náði landi í Sandvík á Suðurey en þar var hann drepinn af bóndanum Þorgrími illa. Sund þetta er sögufrægt og meðal annars segir frá því í Sigmundarkvæði yngra, sem öll skólabörn í Færeyjum lesa.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Færeyinga saga. Af Snerpu.is“.