Fara í innihald

Skyrbjúgur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Skyrbjúgur (scorbutus) er hörgulsjúkdómur sem stafar af C-vítamíns skorti[1]. Skyrbjúgur var lengi algengur hjá sjómönnum og var vandamál í lengri siglingum. Að undirlagi breska hersins hófust kerfisbundnar rannsóknir á orsök skyrbjúgs árið 1747. Uppgötvaðist þá að regluleg neysla safa úr sítrusávöxtum læknaði sjúkdóminn og kom í veg fyrir að hann brytist út[2]. Smám saman einangruðu vísindamenn efnið sem skipti máli, askorbínsýru eða C-vítamín sem kom í veg fyrir skyrbjúg.

Um 1907 var orðið ljóst að flest spendýr framleiða C-vítamín, þó ekki menn og aðrir prímatar (munu þeir hafa misst niður eiginleikann til að framleiða C-vítamín þegar þeir dvöldu í C-vítamínríku umhverfi um nokkurra milljóna ára skeið á þróunarsögu sinni). Árið 1928 uppgötvuðu menn efnasamsetningu þess og var þar með hægt að framleiða C-vítamín.

Íslenska heitið yfir þennan sjúkdóm er líklegast tilkomið vegna misskilnings á orðunum „skørbug“ eða „skörbjugg“ úr öðrum norðurlandamálum, en orðin eru frekar skyld íslenska orðinu skurfa, sem getur þýtt skeina, skráma eða sár.

Helstu einkenni eru þreyta, verkir í fótum og smáblæðingar einkum í tannholdi, sem þrútnar og meyrnar svo tennur losna. Að lokum fær sjúklingur krampa sem getur leitt til dauða ef sjúkdómurinn er ekki meðhöndlaður[2].

Talið er að neysla á skarfakáli hafi komið í veg fyrir að Íslendingar fengju skyrbjúg fyrr á tíðum, en skarfakál er ríkt af C-vítamíni[3]

  1. „Scurvy“. nhs.uk (enska). 25. október 2017. Sótt 20. febrúar 2023.
  2. 2,0 2,1 „Hver var James Lind og hvert var hans framlag til næringarfræðinnar?“. Vísindavefurinn. Sótt 20. febrúar 2023.
  3. „Getið þið sagt mér eitthvað um skarfakál?“. Vísindavefurinn. Sótt 20. febrúar 2023.
  Þessi heilsugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.