Fara í innihald

Sigurður Vigfússon (fornfræðingur)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigurður Vigfússon (8. september 18288. júlí 1892) forngripavörður, oft kallaður Sigurður fornfræðingur eða Sigurður forni var einn af frumkvöðlum í fornleifafræði á Íslandi. Með nákvæmum vinnubrögðum og óþrjótandi áhuga á gildi þess að varðveita fornminjar á Íslandi lagði hann grunn að rannsóknarhefð sem enn er notuð í dag.

Uppvöxtur og menntun

[breyta | breyta frumkóða]

Sigurður var fæddur í Fagradal í Dalasýslu 8. september 1828. Hann var bóndasonur en þegar foreldrar hans brugðu búi um 1846 fór hann til Reykjavíkur og síðar til Kaupmannahafnar að læra gullsmíði. Í æsku fékk hann ekki mikla menntun og talinn ólæs fjórtán ára af sóknarprestinum. Bróðir Sigurðar var Guðbrandur (1827 – 1889) prófessor í Oxford. Sigurður giftist 1858 Ólínu Maríu Kristínu, dóttur I. J. Bonnesen sýslumanns í Rangárvallasýslu. Þau eignuðust ekki börn. Sigurður Vigfússon lést úr lungnabólgu 8. júlí 1892.

Eftir dvölina í Kaupmannahöfn starfaði hann sem gullsmiður í Reykjavík og vann meðal annars að smíði skarts við íslenska búninginn sem Sigurður málari Guðmundsson endurvakti. Kynni hans af Sigurði málara áttu eftir að marka störf hans meirihluta ævinnar. Við stofnun Forngripasafnsins 1863 (síðar Þjóðminjasafns Íslands) var byrjað að halda utan um og skrá fornminjar á Íslandi. Sigurður Vigfússon var fenginn til að starfa við Forngripasafnið við andlát Sigurðar málara 1874. Þar vann hann launalaust við hlið Jóns Árnasonar. Hann tók við sem forstöðumaður safnsins 1878. Hann var duglegur í söfnun og varðveislu forngripa og fór í rannsóknarferðir um landið. Hann var mjög nákvæmur maður og skrifaði ítarlegar lýsingar á hverjum hlut í safninu.

Hann var einn aðalhvatamaður að því að Hið íslenska fornleifafélag var stofnað 1879. Árbók hins íslenska fornleifafélags hefur komið út frá árinu 1880 til dagsins í dag og skrifaði Sigurður í hverja einustu þar til hans lést 1892.

Rannsóknir

[breyta | breyta frumkóða]

Sigurður sem var sjálfmenntaður fornleifafræðingur gerði margar rannsóknir á fornminjum. Hann gerði nákvæmari og skilmerkari rannsóknir og skýrslur en áður þekktist hér á landi. Fyrsta rannsóknin á vegum hins íslenska fornleifafélags var á Þingvöllum 1878. Skýrsla eftir Sigurð um hana birtist í fyrstu árbókinni 1880-1881. Sigurður rannsakaði sannleiksgildi Íslendingasagna. Árbók hins íslenska fornleifafélags 1883 er algjörlega helguð Gísla sögu Súrssonar og rannsókn Sigurðar á söguslóðum hennar. Einnig gróf hann í meintar tóftir hofa, þingstaða, hauga og bæja víðsvegar um landið.

Hvíldarstaður

[breyta | breyta frumkóða]
Legsteinn Sigurðar og Ólínu í Hólavallakirkjugarði

Í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu var reistur bautasteinn á leiði hans árið 1917. Í ræðu sem Matthías Þórðarson þjóðminjavörður flutti í 50 ára afmæli sínu 1913 sagði hann tíma til kominn að sýna Sigurði þá virðingu að reisa minnisstein á leiði hans í Hólavallakirkjugarði. Safnað var fé til þess og steinn sóttur í Öskjuhlíð og grafið í með rúnaletri: Reykvíkingar reistu stein þennan yfir Sigurð son Vigfúsar, forstöðumann Forngripasafnsins, og Ólínu eiginkonu hans.

  • Adolf Friðriksson Leskaflar í íslenskri fornleifafræði, óútkomið handrit
  • M. VII (1917). Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1917 32. árg., 13-15.
  • Valdimar Ásmundarson (1892). Sigurður Vigfússon. Æviatriði hans og störf. Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1888-1892 7. árg., III-VIII