Sigurður Pétursson (1907-1994)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigurður Helgi Pétursson gerlafræðingur (f. 19. maí 1907 á Skammbeinsstöðum í Holtum, d. 15. desember 1994 í Reykjavík) var einn af frumherjum örverurannsókna á Íslandi, en er trúlega þekktastur fyrir rannsóknir sínar á örveruskemmdum í söltuðum fiskafurðum, svo sem jarðslaga og roðaskemmdum í saltfiski og aflitun saltaðra grásleppuhrogna.

Starfsferill[breyta | breyta frumkóða]

Sigurður varði doktorsritgerð sína um mjólkursýrubakteríur af Thermobacterium (nú Lactobacillus) ættkvísl við Christian-Albrechts háskólann í Kiel í Þýskalandi 1935. Að námi loknu hóf hann störf hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík þar sem hann starfaði við mjólkureftirlit í tíu ár, lengst af (frá 1937) meðfram rannsóknastörfum við Iðnaðardeild Atvinnudeildar Háskóla Íslands (HÍ). Hann fluttist svo árið 1960 með gerlarannsóknastofu sína til rannsóknastofu Fiskifélags Íslands, sem varð að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf) árið 1965. Hann var deildarstjóri gerlarannsókna allt til þess er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1976.

Fræðastörf[breyta | breyta frumkóða]

Sigurður kom víða við í rannsóknum sínum. Meðal sérstakra hugðarefna hans voru saltkærar örverur og örveruskemmdir í saltfiski. Saltfiskur var meðal verðmætustu útflutningsafurða íslendinga á þeim árum sem Sigurður hóf sinn rannsóknaferil og höfðu skemmdir á honum verulega efnahagslega þýðingu. Einkum voru það þrenns konar skemmdir sem höfðu valdið miklu tekjutapi í saltfiskiðnaðinum, en þetta voru mygluskemmdir af völdum jarðslaga, illa lyktandi roðaskemmdir af völdum saltkærra fornbaktería og guluskemmdir (sem síðar var sýnt að væru fyrst og fremst af völdum kopars[1]) og átti Sigurður stóran þátt í rannsóknum sem miðuðu að því að halda þessum skemmdum í skefjum. [2][3][4][5]

Meðfram rannsóknastörfum sínum við HÍ og Rf var Sigurður virkur þátttakandi í jafnt alþýðlegri sem sérhæfðri miðlun vísinda og fræða. Hann ritstýrði Tímariti Verkfræðingafélags Íslands frá 1946 til 1949, var formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags frá 1951 til 1955 og ritstjóri Náttúrufræðingsins frá 1956 til 1965. Jafnframt var hann iðinn við að skrifa læsilegar og aðgengilegar greinar í Náttúrufræðinginn og önnur tímarit, svo sem Frey og Ægi um ýmis efni tengd náttúru Íslands og raunvísindum.

Ritaskrá (kennslubækur og stærri verk)[breyta | breyta frumkóða]

Auk mikils fjölda tímaritsgreina og rannsóknaskýrslna skrifaði Sigurður einnig nokkur stærri verk. Þeirra á meðal Sigurðar má nefna:

 • Die Artenunterschiede der wärmeliebenden langen Milchsäurebakterien Thermobacterium (Jensen): Abhängigkeit vom Nährboden und Umwandlungsversuche. Doktorsritgerð. Christian-Albrechts-Universität í Kiel. 1935.
 • Mjólkurfræði. 1939. Reykjavík: Mjólkursölunefnd.
 • Líffræði: ágrip. 1948. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja. (2. útg. 1960).
 • Meginatriði í matvælaiðnaði. 1955. Reykjavík: Ísafold.
 • Gerlafræði. 1956. Reykjavík: Búnaðarfélag Íslands
 • Bókin um fiskinn. 1969. Reykjavík: Fiskifélag Íslands

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Geir Arnesen (1977) Gulumyndun á saltfiski. Tæknitíðindi nr. 97. Reykjavík: Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
 2. Sigurður H. Pétursson (1933) Jarðslaginn. Skýrsla til Fiskifélags Íslands. Ægir 26, 60-67.
 3. Sigurður H. Pétursson (1954) Orsakast gulan í saltfiskinum af gerlum? Ægir 47, 104.
 4. Sigurður H. Pétursson (1961) Áhrif hráefnisgæða á útflutningsverðmæti saltfisks. Verkefnaskýrsla Rannsóknastofu Fiskifélags Íslands No. 2 1960-1961, bls. 45-46.
 5. Sigurður H. Pétursson og Geir Arnesen (1975) Roði í saltfiski. Tæknitíðindi nr. 55. Reykjavík: Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.