Sigurður Kristófer Pétursson
Sigurður Kristófer Pétursson (9. júlí 1882 – 19. ágúst 1925) var sjálfmenntaður fræðimaður og þýðandi, en hann þýddi t.d. Hávamál Indíalands: Bhagavad-Gíta. Hann var mikill málamaður, las norðurlandamálin öll, og talaði og ritaði dönsku. Ensku og þýsku nam hann svo vel að hann gat lesið vísindarit á þeim málum, og talaði esperanto og orti á því máli. Sigurður Kristófer er þekktastur fyrir bók sína: Hrynjandi íslenskrar tungu, en hún útskýrir með mjög sérstökum hætti hvernig skrifa má fallegra óbundið íslenskt mál. Sigurður Nordal las handritið yfir og benti á margt sem betur mátti fara.
Þegar Sigurður Kristófer var 14 vetra varð hann holdsveikur. Tveimur vetrum síðar, árið 1898, tók Laugarnesspítali til starfa. Fékk hann þá vist þar og var hann einn af fyrstu sjúklingum sem þangað fluttust. Dvaldist hann þar til dauðadags. Sjúkdómur hans var hin svonefnda slétta holdsveiki. Ekki varð séð að hún ágerðist hið minnsta seinni árin. Það sem mest þjáði hann var meltingarsjúkdómur, en ekki holdsveiki. Sjúkdómur þessi ágerðist meir og meir, þar til hann var skorinn upp haustið 1923. Batnaði þá nokkuð um hríð, en síðan sótti í sama horf. Síðasta haust sitt var hann sárlasinn. Vann hann þá sem ákafast að bók sinni Hrynjandi íslenskrar tungu, og undi sér engrar hvíldar.
Sumir töldu að Sigurður ætti skilið doktorsnafnbót fyrir kenningu sína en hann svaraði því til að sér nægði sá titill, sem ekki yrði af sér tekinn: Sjúklingur í Laugarnesspítala.
Eitt og annað
[breyta | breyta frumkóða]- Um Sigurð er nokkuð fjallað í Sögu hugsunar minnar eftir Brynjúlf Jónsson frá Minna Núpi, m.a. er birt þar í viðauka sendibréf frá Sigurði til Brynjúlfs, sjá bls. 100 - 104. Bréfið er ritdómur Sigurðar um bók Brynjúlfs.
- Í Sálmabók Þjóðkirkjunnar er einn sálmur eftir Sigurð nr. 402, Drottinn vakir, drottinn vakir daga' og nætur yfir þér.[1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Um vetrarsólhvörf – (Hugleiðing um Sigurð Kristófer Pétursson); grein eftir Óskar Aðalstein skáld
- Sigurður Kristófer Pétursson. – Eimreiðin, 2. Hefti (01.04.1925), bls. 147-154