Sigríður Geirsdóttir
Guðrún Sigríður Geirsdóttir einnig þekkt sem Sirrý Geirs (f. 29. maí 1938 - 1. febrúar 2020) var íslensk fegurðardrottning, kvikmyndaleikkona og kennari.
Sirrý lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1958 og um haustið hóf hún nám í heimspeki, frönsku og sænsku við Háskóla Íslands. Hún var valin fegurðardrottning Íslands er hún sigraði í fegurðarsamkeppni Íslands 1959. Árið 1960 tók hún þátt í fegurðarsamkeppninni Miss International, sem þá var haldin í fyrsta skipti og fór fram á Langasandi (Long Beach) í Kaliforníu. Hún varð í þriðja sæti og vann titilinn Miss Photogenic. Í kjölfar sigursins ferðaðist hún víða og hóf kvikmyndaleik og kom fram í nokkrum kvikmyndum og sjónvarpsþáttum vestra undir nafninu Sirry Steffen.
Eftir nokkur ár í Hollywood fluttist hún aftur heim til Íslands árið 1970. Hún kom fram sem söngkona með dægurlagahljómsveitum, t.d. með KK sextett og hljómsveit Ragnars Bjarnasonar. Hún lék einnig í kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar, Okkar á milli (1982). Árið 1981 lauk hún BA-prófi í ensku frá Háskóla Íslands og ári síðar einnig námi í kennsluréttindum. Hún kenndi ensku um árabil við Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Menntaskólann á Laugarvatni.[1]
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Hringbraut.frettabladid.is, „Sirrý Geirs fegurðardrottning er látin“ (skoðað 19. febrúar 2020)