Selma Jónsdóttir
Sigþrúður Selma Jónsdóttir (22. ágúst 1917 – 5. júlí 1987) var íslenskur listfræðingur og fyrsti forstöðumaður Listasafns Íslands frá 1950 til dauðadags. Hún var fyrsta konan sem varði doktorsritgerð við Háskóla Íslands, þann 16. janúar 1960. Í ritgerðinni sýndi hún fram á að útskornar fjalir úr Flatatungu hefðu upprunalega verið hluti af dómsdagsmynd í býsönskum stíl frá miðöldum.
Æska og nám
[breyta | breyta frumkóða]Selma Jónsdóttir var fædd í Borgarnesi og var yngsta barn Jóns Björnssonar, kaupmanns í Borgarnesi, og konu hans Helgu Björnsdóttur. Að loknu prófi frá Verzlunarskóla Íslands stundaði hún nám í Þýskalandi þar sem hún lærði þýsku og þýskar bókmenntir. Selma fluttist til Bandaríkjanna árið 1941 og lauk B.A.-prófi í listfræði frá Columbia háskóla í New York. Þá stundaði Selma framhaldsnám við sama skóla á árunum 1944–1945 og við Warburg Institute í London 1946–1948. Hún lauk M.A.-prófi árið 1949. Meistaraprófsritgerð Selmu vakti mikla athygli, bæði hér á landi sem og erlendis, og birtist ritgerðin í tímaritinu The Art Bulletin í september 1950.[1]
Sérsvið Selmu var miðaldalist og á því sviði vann hún mikið brautryðjendaverk. Selma varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands þann 16. janúar 1960. Í ritgerðinni sýndi hún fram á að útskornar fjalir úr Flatatungu hefðu upprunalega verið hluti af dómsdagsmynd í býsönskum stíl frá miðöldum. Almenna bókafélagið gaf ritgerðina út, bæði á íslensku og ensku.[1]
Selma giftist Dr. Sigurði Péturssyni, gerlafræðingi, árið 1955 sem síðar varð forstöðumaður gerlarannsóknarstofu Fiskifélags Íslands. Selma og Sigurður voru barnlaus.[2]
Listasafn Íslands
[breyta | breyta frumkóða]Selma var skipuð umsjónarmaður Listasafns Íslands árið 1953 og forstöðumaður safnsins 1961. Því starfi gegndi hún til dauðadags árið 1987. Það kom því í hlut Selmu að móta starfsemi Listasafns Íslands og marka stefnuna eftir að það tók til starfa sem sjálfstæð stofnun. Frá upphafi var safninu sniðinn þröngur stakkur bæði í húsnæði og fjárveitingum en af þrautseigju og alúð tókst henni að efla starfsemina og stækka safnið. Munaði þar mest um eigið húsnæði í hjarta borgarinnar en Selmu var það alla tíð mikið kappsmál. Fyrir baráttu hennar eignaðist safnið Fríkirkjuveg 7 árið 1972 og við tóku byggingarframkvæmdir og mikið uppbyggingarstarf.[3]
Í tíð Selmu jókst sýningarhald safnsins til muna og stóð safnið fyrir fjölmörgum sýningum á safnkostinum í húsnæði safnsins, víðs vegar um landið og einnig erlendis, auk þess að halda fjölbreyttar sýningar á verkum einstakra listamanna, bæði innlendra og erlendra, og kynna erlenda myndlist fyrir landsmönnum. Selma var einnig hvatamaður að umfangsmiklu heimildasafni um íslenska myndlist og myndlistarmenn, sem hefur gegnt mikilvægu hlutverki í listfræðirannsóknum fræðimanna og nemenda á öllum skólastigum.[3]
- ↑ 1,0 1,1 Rakel Adolphsdóttir. (Ágúst 2017). „Selma Jónsdóttir. 100 ára minning“ (PDF). Landsbókasafn Íslands. Háskólabókasafn.
- ↑ „Dr Selma Jónsdóttir listfræðingur – minningarsíða – Safnahús Borgarfjarðar“. safnahus.is. Sótt 1. apríl 2021.
- ↑ 3,0 3,1 „Dr. Selma Jónsdóttir – Aldarminning“. Listasafn Íslands. Sótt 1. apríl 2021.