Fara í innihald

Blettakarfi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Sebastes alutus)
Blettakarfi (Kyrrahafskarfi)

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Brynvangar (Scorpaeniformes)
Ætt: Karfaætt (Sebastide)
Ættkvísl: Sabastes
Tegund:
S. Alutus

Tvínefni
Sabastes Alutus
C. H. Gilbert, 1890

Blettakarfi einnig nefndur Kyrrahafskarfi (fræðiheiti: Sabastes alutus), er fiskur af karfaætt. Hann lifir á stóru hafsvæði í Norður-Kyrrahafi og finnst frá suðurhluta Kaliforníu upp alla vesturströnd Bandaríkjanna yfir Kyrrahafið og norðan við Honshu, stærstu eyju Japans. Blettakarfinn finnst í Beringshafi á milli Alaska og austurströnd Síberíu en finnst þó ekki Okotskhaf. Mest er af honum finnst þó í Alaskaflóa, við Bresku-Kólumbíu og við Aleuteyjar.

Blettakarfinn er með stuttan og samþjappaðan búk sem mjókkar við sporðinn. Hann hefur stóran kjaft og er yfirmynntur. Höfuð er ekki með göddum en líkaminn hefur marga gadda sem notaðir eru til varnar. Blettakarfinn hefur einn bakugga með 13 beinum, raufarugga og paraða kviðugga. Fiskurinn er ljós rauður að ofan og hvítleitur að neðan. Karfinn hefur oft dökka bletti á hryggnum og oft er stór grænleitur blettur fyrir aftan augu hans. Blettakarfinn er fullorðinn frá 25 - 43 cm en sá stærsti sem hefur mælst er 53 cm. Þyngsti mældi karfinn var 2,1 kg og sá elsti var 103 ára.

Lifnaðarhættir

[breyta | breyta frumkóða]

Ekki er vitað mikið um líf blettakarfans en þó er almennt vitað meira um hann en aðrar karfategundir. Blettakarfinn er hægvaxta fiskur sem lifir lengi og getur orðið mjög gamall. Hann verður kynþroska um 20 ára. Karfinn stundar innri frjóvgun sem á sér stað um haust og getur lifandi afkvæmum í apríl og maí. Blettakarfinn gýtur um 300.000 afkvæmum. Talið er að lirfa karfans lifi í uppsjó og fljóti með straumnum og því er búsvæði blettakarfans afar stórt.

Þegar lirfuskeiðinu er lokið færa ungir blettakarfar sig inn að ströndum. Seiði blettakarfans búa líklega innan um stóra steina og gjótur þar sem auðvelt er að fela sig. Þegar seiðin ná þriggja ára aldri byrja seiðin að færa sig dýpra og lengra út á landgrunnið og að lokum færir blettakarfinn sig út landgrunnsbrúnina þegar hann nær fullorðinsárum. Blettakarfinn finnst aðallega á 165 – 293 metra dýpt en á sumrin færir hann sig ofar en á veturna fer hann á meira dýpi. Líklega færir blettakarfinn sig ofar á sumrin til að fá meiri ætu. Blettakarfinn færir sig einnig ofar á næturna til að éta og heldur sig nálægt botninum á daginn.

Blettakarfinn er aðalega svifæta og borðar aðalega ljósátu. Helstu rándýr sem herja á blettakarfan eru svartþorskur, búrhvalir og kyrrahafslúða.

Veiðar á blettakarfa eftir ári og löndum

Blettakarfi hefur verið veiddur lengi. Fyrst um sinn voru Japanir og Bandaríkjamenn þeir einu sem veiddu tegundina en upp úr 1960 byrjuðu Sovétríkin að moka honum upp og mikil ofveiði átti sér stað næstu 10- 15 ár en eftir það minnkaði veiði mikið. Eftir 1985 hefur stofninn verið viðkvæmur. Í dag eru aðalega Bandaríkin, Kanada og Japan einu löndin sem eru með skráðan afla sem er þó ekki mikill. Þar sem blettakarfinn vex mjög hægt þá hefur tekið langan tíma að byggja upp stofninn en hann lítur betur út með hverju árinu og virðist ströng fiskistjórnun hafa skilað tilsettum árangri. Tegundin er aðalega veidd í botnvörpu en 20% af afla er veiddur með flotvörpu. Blettakarfin er mikilvægur efnahagslega og samfélagslega í mörgum minni samfélögum í Bresku Kólumbíu.