Sauðabréfið
Sauðabréfið – (færeyska: Seyðabrævið) – er réttarbót, sem Hákon háleggur hertogi, síðar Noregskonungur, gaf út 24. júní 1298. Sauðabréfið er elsta skjal sem varðveitt er frá Færeyjum. Það er sett að ósk Færeyinga sjálfra, og höfðu þeir Erlendur biskup í Kirkjubæ og Sigurður lögmaður á Hjaltlandi milligöngu um það, og hafa trúlega samið textann.
Sauðabréfið er viðauki við Landslög Magnúsar lagabætis frá 1274. Eins og nafnið bendir til, er bréfið viðauki við búnaðarbálkinn í lögbókinni. Nafnið kemur hins vegar fyrst fyrir í handritum frá því um 1600.
Handritin
[breyta | breyta frumkóða]Sauðabréfið er varðveitt í tveimur skinnbókum: Kóngsbókinni úr Færeyjum og Lundarbókinni. Bréfið, eða hluti þess, er einnig varðveitt í þremur pappírshandritum frá því eftir siðaskipti.
Kóngsbókin úr Færeyjum
[breyta | breyta frumkóða]Kóngsbókin var áður í Konunglega bókasafninu í Stokkhólmi, auðkennd Sth. Perg. 33, 4to. Fremst í handritinu eru Landslög Magnúsar lagabætis (uppskrift frá því um eða skömmu eftir 1300), síðan kemur Sauðabréfið á fjórum blöðum, og aftast bréf frá 14. júlí 1491. Á meðan bókin var í Færeyjum hefur ýmislegt verið skrifað í hana þar sem pláss hefur verið, svo sem Hundabréfið sem talið var ólesandi, en Jóni Helgasyni prófessor tókst að lesa að mestu. Bókin var í Færeyjum fram til um 1599, og hefur fylgt lögmannsembættinu. Síðasti Færeyingur sem hafði hana undir höndum var Pétur Jakopsson, bóndi í Kirkjubæ og lögmaður Færeyja 1588–1601. Hann fór með bókina til Björgvinjar árið 1599, og lét binda hana inn. Var nafn hans sett á fremra spjaldið og ártalið á það aftara. Bókin varð eftir í Björgvin og var þar um skeið. Um 1680 er hún komin til Stokkhólms og fór þar í Konunglega bókasafnið. Nafnið Kóngsbókin er í færeyskum sögnum dregið af því að bókin var talin eign konungs, þó að hún væri í vörslu lögmannsembættisins, auk þess sem hún var uppspretta konungsvaldsins í Færeyjum.
Í Kóngsbókinni er Sauðabréfið á fjórum blöðum, og eru fyrsta og aftasta síðan auðar. Það bendir til að þetta hafi verið sérstakt skjal, sem var fest inn í bókina. Ekki verður betur séð en að þetta sé frumrit Sauðabréfsins, því að fremst hefur Hákon háleggur skrifað á latínu (því miður nokkuð skert):
- „[Ego H]aq(ui)nus dei gr(aci)a manu propria scr[ips]imus et signavimus.“ Þ.e.: „Vér Hákon af Guðs náð með egin hönd skrifað og undirritað.“
Neðan við er búmerki Hákonar. Neðan við bréfið stendur skrifað á latínu, með annarri rithönd:
- „Et ego ako domini duci[s Nor]vegie, cancellarius s[ub]scripsi manu propria, hic in fine.“ Þ.e.: „Og eg, Áki, kanslari Herra hertoga Noregs, hef skrifað undir eigin hendi hér að lokum.“
Hinn 7. desember 1989 ákvað sænska þingið að gefa Færeyingum Kóngsbókina, í ljósi þess hversu mikilvæg hún er í færeyskri sögu. Bókin var afhent við hátíðlega athöfn í færeyska Lögþinginu 28. ágúst 1990 sem gjöf frá sænsku þjóðinni, og er nú í Þjóðskjalasafninu í Þórshöfn, með sama auðkennisnúmeri og áður.
Lundarbókin
[breyta | breyta frumkóða]Lundarbókin er í Háskólabókasafninu í Lundi í Svíþjóð, miðaldahandrit nr. 15. Hún er skrifuð nokkru síðar en texti Sauðabréfsins í Kóngsbókinni, eða um 1320, og er með glæsilegustu og best varðveittu lögbókum frá sinni tíð. Stefán Karlsson handritafræðingur telur að Lundarbókin hafi verið gerð fyrir biskupsstólinn í Kirkjubæ í Færeyjum og líklega verið þar til siðaskipta. Síðar barst bókin til Svíþjóðar og var gefin Háskólabókasafninu í Lundi á 18. öld.
Meginefni Lundarbókar eru aðrir lagatextar, svo sem Hirðskrá, bæjarlög Björgvinjar, Landslög Magnúsar lagabætis o.fl.
Sauðabréfið er á sex síðum í Lundarbókinni. Textinn er þar nokkru fyllri en í Kóngsbókinni (16 greinar í stað 12), og fyrirsögnum bætt við. Sum efnisatriði eru færð til. Málið er talið „færeyskara“ en í Kóngsbókinni, og er hugsanlegt að Færeyingur hafi haldið á penna. Færeyski fræðimaðurinn Jakob Jakobsen setti fram þá tilgátu 1907, að Erlendur Færeyjabiskup hafi ekki aðeins átt hlut að upphaflegri gerð Sauðabréfsins, heldur einnig þeirri endurskoðuðu gerð sem birtist í Lundarbók.
Efnisgreinar Sauðabréfsins
[breyta | breyta frumkóða]Sauðabréfið hefst á ávarpi Hákonar háleggs, og á eftir því koma 16 lagagreinar skv. Lundarbókinni:
- Um að fjáreigandi skuli sanna fjáreign sína fyrir slátrun.
- Um að ganga um land annars manns og reka brott fénað hans.
- Um fjárbeit á annarra manna landi.
- Um að kyrra sauð í haga.
- Um að marka annarra sauð.
- Um ágenga fjárhunda (sauðbíta), skaðabótaskyldu og fjárfjölda á beitilandi.
- Um viðvörun til þeirra sem eiga sauð í annars haga.
- Um skylduna að tilkynna um smölun, ef land liggur saman.
- Um að kyrra styggan sauð – seinni hluti.
- Um landskuld og kornskurð, þegar menn fara af jörðu.
- Um óboðna gesti, rétt fátækra og þá sem skemma góða menn í orðum og treysta féleysi sínu.
- Um vitnisburð.
- Um vistargjald þeirra sem hafa vetursetu í Færeyjum.
- Um þá sem setja saman bú, og þá sem hlaupast brott.
- Um hvalfund á hafi.
- Um hvalreka.
Sauðabréfið sem heimild
[breyta | breyta frumkóða]Sauðabréfið gefur mikilvæga innsýn í færeyskt samfélag um 1300. Ýmis ákvæði þess hafa haft lagagildi fram á okkar tíma. Af Sauðabréfinu má sjá að um 1300 var norrænan sem töluð var í Færeyjum, farin að fá sérstök einkenni. Einnig eru í Sauðabréfinu mörg orð, sem ekki koma annars staðar fyrir í fornum handritum, svo sem hagfastur, haglendi, að kyrra (sauð), sauðbítur, vagnhögg o.fl. Vagnhögg merkir stykki úr hval, eða leifar af hval, sem vagnhvalir, þ.e. háhyrningar, hafa rifið í sig.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Fårebrevet“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. maí 2008.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Schafsbrief“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 12. maí 2008.