Fara í innihald

Saltpéturssýra

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Efnafræðilega uppbygging saltpéturssýru

Saltpéturssýra[1] (kallað aqua fortis eða „sterkt vatn“ í gullgerðarlist) er eitruð sýra sem er afar ætandi. Fræðiheitið er vetnisnítrat og efnafræðiformúlan HNO3.

Hrein saltpéturssýra er litlaus vökvi með þéttleikann 1,522 g/cm³. Hún verður að föstu efni við -42 °C og myndar þá hvíta kristalla en sýður við 83 °C. Niturdíoxíð (NO2) losnar úr saltpéturssýru við suðu og jafnvel við herbergishita samkvæmt þessari efnaformúlu:

4HNO3 → 2H2O + 4NO2 + O2 (72 °C)

Því ætti að geyma saltpéturssýru við hitastig undir 0 °C til að hindra slíkt efnahvarf. (NO2) sem er leyst upp í saltpéturssýru litar sýruna gula eða rauða við hærra hitastig. Hrein saltpéturssýra verður hvít þegar hún kemst í snertingu við loft en sýra blönduð niturdíoxíði myndar rauðbrúna gufu.

Saltpéturssýra í efnafræðistofu.

Saltpéturssýra er fyrst og fremst notuð til áburðarframleiðslu. Er hún þá blönduð með ammóníaki en þá verður til ammoníumnítrat sem er hættuminna efni. Þessi áburðarblanda er um 75-80% af um 26M tonna árlegri framleiðslu (1987). Einnig er sýran notuð við gerð sprengiefna, svo sem nítróglýseríns, trínítrótólúens (TNT) og sýklótrímetýltrínítramíns, og til að hreinsa og leysa upp málma. Auk þess er hún notuð í hreinsivörur til hreinsunar á verkfærum í matvæla-og mjólkurframleiðslu og er þá algengt að blanda 5-30% saltpéturssýru saman við 14-40% fosfórsýru.

Slysahætta af saltpéturssýru

[breyta | breyta frumkóða]

Saltpéturssýra getur verið mjög skaðleg. Sem dæmi má nefna slys sem varð í Tyrklandi árið 1965 þar sem 23 farþegar í rútu biðu bana eftir að hafa stokkið ofan í skurð fullan af saltpéturssýru þegar rútan lenti í árekstri við flutningabíl fullan af sýrunni. Sýran lak ofan í skurðinn sem báðir bílarnir ultu ofan í og héldu farþegarnir að kviknað hefði í bílunum og reyndu að bjarga sér með því að stökkva ofan í skurðinn. Átján manns létust samstundis en fimm á sjúkrahúsi. Sum líkin brunnu svo illa að ekki einu sinni beinin voru eftir.[2]

Kviknað getur í saltpéturssýra þegar hún kemst í samband við ýmis lífræn efni svo sem terpentínu.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Orðið „Saltpéturssýra“ á Orðabanka íslenskrar málstöðvar
    Geymt 5 október 2017 í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni
  2. „Hroðalegt slys í Tyrklandi“. Þjóðviljinn. Sótt 8. janúar 2013.
  Þessi efnafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.