Sölvahamar
Sölvahamar eru háir (50-60 m) sjávarhamrar norður af Arnarstapa og vestast í Breiðuvík á Snæfellsnesi. Skammt fyrir ofan klettabrúnina er hraunið Klifhraun sem runnið er úr Snæfellsjökli og fram af hömrunum, sem í er mikið fuglalíf, falla nokkrir fossar og heitir einn þeirra Þrífyssa. Á fjöru má ganga undir klettunum og virða fyrir sér gróðurinn og jafnvel seli í sólbaði.
Brekka er frá Sölvahamri og að Arnarstapa og heitir hún Stapaklif. Hefur gata verið sprengd inn í brekkuna, sem þykir ill yfirferðar á vetrum, og hlaðnir þar kantar. Á milli hraunjaðars og klettabrúna var fyrrum alfaraleið og lá gatan víða tæpt á brúninni fram með Klifhrauni og þar sem það stöðvast á brúninni er klettur. Eru til um þessa leið og klettinn ýmsar sagnir og tvennar sögur fara af forsendum fyrir Sölvanafni á hömrunum.
Sögur og sagnir
[breyta | breyta frumkóða]Um klettinn fyrrnefnda segir, að hann heiti Göngukonusteinn og er um hann sú saga, að einhverju sinni hafi hestalest sem þar átti leið um riðið fram á förukonu þar sem hún lá undir steininum. Bað hún lestarmenn um matarbita og neituðu þeir umsvifalaust bón hennar. Reiddist hún þá mjög við og lagði svo á um, að hraun myndi þeim eyða. Gusu upp við svo búið jarðeldar og þeir eyddu hestalestinni. Vestan við Göngukonustein eru gamlar rústir ofan við götuna, sem hafa verið friðlýstar síðan 1928 og eru þær samkvæmt munnmælasögum rústirnar af bæ Sölva.
Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir að Bárði hafi sinnast svo við bróðurson sinn, Sölva Þorkelsson á Arnarstapa, að hann hafi tekið hann og varpað fram af hömrum þessum, Sölvi látið þar lífið og bær Sölva við svo búið lagst í eyði. Annars staðar segir svo frá í Landnámu, að Sölvi hafi numið land á milli Hellishrauns og Sleggjubeinsár og hafi hann fyrst búið í Brenningi en síðar á Sölvahamri.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson og Páll Líndal (1982). Landið þitt Ísland, S-T. Örn og Örlygur.
- Björn Hróarsson (1994). Á ferð um landið, Snæfellsnes. Mál og menning. ISBN 9979-3-0853-2.