Rokk gegn her
Rokk gegn her voru rokktónleikar í Laugardalshöll haldnir þann 13. september 1980 á vegum Samtaka herstöðvaandstæðinga. Tónleikarnir áttu sér erlendar fyrirmyndir og var til að mynda horft til breskra tónleikaraða með yfirskriftinni Rock Against Racism.
Myndlistar- og tónlistarmaðurinn Tolli var framkvæmdastjóri tónleikanna, sem voru í raun alhliða listasamkoma. Til að mynda voru tveir veggir Laugardalshallar þaktir gríðarstórum myndverkum sem fólu í sér friðarboðskap. Dagana fyrir Rokk gegn her birtust leikarar út um alla Reykjavík íklæddir hermannabúningum og komið var fyrir sandpokabyrgjum á fjölförnum gatnamótum. Þar var á ferðinni leikhópurinn Táragas sem tróð upp á tónleikunum og flutti ásamt Karli Sighvatssyni tónverk meðan kvikmynd frá inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið var sýnd á skjá.
Hljómsveitirnar Mezzoforte, Þursaflokkurinn og Utangarðsmenn spiluðu. Um 3000 manns sóttu tónleikanna að sögn skipuleggjenda.