Fara í innihald

Rockall

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rockall.
Staðsetning Rockall í Atlantshafi.

Rockall eða Rockalldrangur er lítil óbyggð klettaeyja í Norður-Atlantshafi um það bil 460 kílómetra vestur af Skotlandi. Kletturinn er leifar útkulnaðs neðansjávareldfjalls. Rockall er sömuleiðis nafn á einu af spásvæðum sjóveðurspár BBC.

Eyjan er 27 metrar í þvermál og rís 23 metra úr sjó. Heildarflatarmál hennar er u.þ.b. 570 . Eina varanlega lífið á klettinum eru ýmis sjávarlindýr sem festa sig við hann. Sjófuglar á borð við ritur, súlur, fýla og langvíur nota hann til hvíldar á sumrin en verpa sjaldan þar. Engin ferskvatnsuppspretta er á eynni.

Rockall fellur innan efnahagslögsögu Bretlands og Bretar vildu lengi vel nota klettinn sem viðmiðunarpunkt og reikna 200 mílna efnahagslögsögu út frá honum. Þeir gáfu þá kröfu hinsvegar upp á bátinn þegar þeir samþykktu Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna 1997 en sáttmálinn kveður á um að ekki sé unnt að nota óbyggileg sker sem viðmiðunarpunkta.

Þó að ekki sé deilt um yfirráð yfir eyjunni sem slíkri þá er deilt um hver eigi landgrunnsréttindi á svæðinu vestur af Rockall. Slík réttindi veita ríkjum einkarétt á nýtingu auðlinda sem hugsanlega finnast á eða undir sjávarbotninum, talið er mögulegt að þar leynist olía eða gas. Írland, Bretland, Danmörk (fyrir hönd Færeyja) og Ísland gera öll kröfu til þessara réttinda. Ríkin hafa frest fram að maí 2009 til þess að ná samkomulagi um skiptingu landgrunnsins og leggja það fyrir landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna.