Robert Boyle

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Málverk af Robert Boyle
Loftdæla Roberts Boyle

Robert Boyle (25. janúar 16271691) var írskur eðlis- og efnafræðingur. Hann er þekktastur fyrir að hafa sett fram lögmál um vensl þrýstings og rúmmáls fyrir gas. Hann samdi mörg rit um heimspeki, læknisfræði og trúmál. Robert Boyle var af aðalsættum og faðir hans var á tímabili einn ríkasti maður Bretlands.

Boyle flutti til Oxford árið 1654. Hann hafði aldrei stöðu í háskólanum og fjármagnaði tilraunir sínar og laun aðstoðarfólks sjálfir. Árið 1660 stofnaði hann ásamt 11 öðrum The Royal Society of London for Improving Natural Knowledge (Konunglega breska vísindafélagið). Boyle lét sér ekki nægja þá vísindahefð sem tíðkast hafði frá dögum Aristótelesar að tala um uppgötvanir heldur framkvæmdi hann tilraunir og dró ályktanir út frá þeim og skrifaði í greinum sínum nákvæmar framkvæmdalýsingar, lýsingar á tækjum og framvindu.

Hann var trúaður í leit að reglum náttúrunnar. Hann lofttæmdi glerhjálm og komst að því að kol né brennisteinn brunnu ekki í lofttómi. Hann komst líka að því að hljóð ferðast ekki í lofttæmi og eldur logar ekki og líf þarf loft.

Árið 1664 kynnti Boyle lakkmúslit (e. litmus) en það var litarefni sem er unnið úr skófum og breytti um lit eftir sýrustigi; í basísku umhverfi er litarefnið blátt en í súru er það rautt.

Boyle birti fyrstur lýsingu á flotmæli sem er tæki til að mæla eðlisþyngd vökva. Boyle er þekktastur fyrir að hafa uppgötvað vensl milli þrýstings og rúmmáls fyrir gas sem hann setti þannig fram að ef hitastigi ákveðins magns af gasi var haldið föstu þá var þrýstingur gassins í öfugu hlutfall við rúmmál þess, eða P∼1V þar sem P stendur fyrir þrýsting og V fyrir rúmmál.

Í dag er þetta lögmál þekkt sem PV=nRT þar sem n stendur fyrir fjölda einda mælt í mólum R fyrir gasfastann (R = 8,314 J/(K∙mol)) og T fyrir hitastig mælt í einingunni kelvín.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Emelía Eiríksdóttir. „Hver var Robert Boyle og hvert var hans framlag til vísindanna?“. Vísindavefurinn 24.10.2011. http://visindavefur.is/?id=52325. (Skoðað 26.2.2014).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hver var Robert Boyle?“. Vísindavefurinn.