Fara í innihald

Riddari

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Riddarar að berjast á hestum

Riddarar voru uppi á miðöldum eða frá u.þ.b. 800 e. Kr. til rúmlega 1450 e. Kr. en áttu blómaskeið sitt á tímum lénsskipulagsins. Þeir voru með mikilvægari stríðsmönnum allt þar til fallbyssur og rifflar leystu þá af hólmi. Á miðöldum riðu margir riddarar til bardaga. Þeir sátu um kastala óvinaherja og lengi var þeim skipað til blóðugra bardaga og verndar eigin kastala gegn umsátri óvina. En riddarar voru ekki alltaf svo góðir að berjast. Riddarar þurftu að æfa sig mikið æfingum. Fyrst þurftu þeir að verða riddarasveinar (e. page) og ef þeim gekk vel gátu þeir orðið skjaldsveinar (e. squire) og ef skjaldsveinar voru orðnir þess verðugir voru þeir slegnir til riddara.

Riddarasögur bárust til Íslands um 13. öld og báru með sér ný orð eins og riddari sem kemur af miðlágþýska orðinu ridder og þýðir reiðmaður.[1]

Riddarasveinn

[breyta | breyta frumkóða]

Sonur riddara var yfirleitt sendur fimm til sjö ára frá heimili sínu til nálægs kastala. Þar þjálfaði kastalahöfðinginn hann til riddara. Þá fyrst var hann kallaður riddarasveinn. Riddarasveinn hjálpaði herra (höfðingja) sínum að klæða sig í brynjuna og setja upp vopnin. Hann var látinn leika marga leiki til æfingar, þar á meðal glímu, háhestaglímu, sverðæfingar með oddlausu trésverði og pínulitlum viðarskildi( buklara) og landæfingar á rúllandi trjábolum sem tveir aðrir riddarasveinar dróg, í átt að markstólpa (sem oft var hreyfanlegur). Á hinum endanum var sandpoki. Þegar riddaraspjótið hitti markið þurfti ungi riddarasveinninn að víkja sér undan eða verða fyrir pokanum fullum af sandi. En sjaldan var þeim kennt að lesa eða skrifa því það var ekki talið vera riddaralegt í þá daga. Kastalafrúrnar kenndu þeim þó borðsiði. Riddarasveinninn beið alltaf eftir kastalaherranum eða frúnni, það var hans skylda og forréttindi að blanda geði við kastalahöfðingjann og frúna á öllum tímum. Hann lærði að veiða, og honum var kennt að vera snöggur, þakklátur, sveigjanlegur og örlátur. Honum var líka kennt hvernig ætti að umgangast eigur sínar og halda þeim við. Þegar brynja kastalahöfðingjans ryðgaði velti riddarasveinninn henni um í tunnu fullri af sandi til þess að hreinsa hana af ryði.

Skjaldsveinn

[breyta | breyta frumkóða]

Til að geta orðið riddari þurfti fyrst að verða skjaldsveinn riddara og bíða þar til riddarinn sjálfur sló hann til riddara þegar honum fannst hann reiðubúinn - yfirleitt á aldrinum 17-21 árs. Seinna varð siður að drottningar eða kóngar slógu menn til riddara og þótti það (og þykir enn) mikill heiður. En áður en maður var sleginn til riddara þurfti hann að verða skjaldsveinn og þola alls kyns raunir og undirbúning. Áður en riddarasveinn gat orðið skjaldsveinn riddara var hann klæddur upp í hvítan kyrtil og látinn biðja fyrir riddaranum heila nótt. Algengt var að riddarasveinar gætu orðið skjaldsveinar um fjórtán ára að aldri. Skjaldsveinninn var aðalhjálparhella og þjónn riddara. Í bardögum var hlutverk þeirra að fá riddaranum vopn, nýja brynju, eða hvert það verkfæri sem hann þarfnaðist. Því urðu þeir að annast allan farangur riddarans, þar á meðal aukahest, aukabrynju, skildi og lensur og þarna vandist skjaldsveinninn við þung vopn og brynjur. Skjaldsveinar léku oft leiki með alvöru vopnum á móti riddurum. Skjaldsveininum var kennt að sitja hest í fullum skrúða og hvernig átti að fara að því að hafa hendurnar frjálsar til að bregða sverði og nota skjöld eða önnur vopn á hestbaki. Á meðan hann var skjaldsveinn var honum leyft að bera sverð og skjöld, sem sýndi hvaða skyldum hann gengdi.

Sláttur til riddara

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar skjaldsveinn var sleginn til riddara kraup hann á kné fyrir húsbónda sínum. Því næst sló herra hans hann utan undir með sverðsblaðinu eða hendinni, en algengara er að sverðsblaðinu sé slegið flötu létt á vinstri öxl, þá á höfuð og loks á hægri öxl. Á meðan húsbóndinn gerði það sagði hann: „ég nefni þig riddara”. (Á ensku var sagt “i dub thee knight” — á íslensku er sögnin "að dubba" e-n upp dregin af sama orði, en rétt er að muna að ekki voru allir riddarar enskumælandi.) Þá tók hinn nýi riddari við brynju, sverði og skildi, og var þetta allt saman þrungið mikilli merkingu. Yfirleitt var skjaldsveinum og riddurum kennt að þyrma lífi annarra riddara og aðals í bardögum og var þá í lengstu lög reynt að taka þá til fanga, í því skyni að fá lausnargjald fyrir þá, en fyrir daga almennrar skattheimtu var það veigamikill þáttur í fjármögnun herferða.

Burtreiðar

[breyta | breyta frumkóða]

Burtreiðar voru fyrst stundaðar sem æfingar á friðartímum og hentuðu vel til að æfa skjaldsveina í að sitja hest með vopn og skjöld. Seinna urðu þær vinsæl íþrótt og fólk flykktist að til að horfa á þær. Sérstakir vellir voru byggðir, með stúkum og sætum fyrir kónga og kastalahöfðingja, og má segja að þetta hafi eiginlega tekið við af hringleikum Rómverja. Burtreiðar gengu út á það að reyna að hæfa andstæðinginn með löngu spjóti þegar riðið var móti honum á hesti. Gefin voru stig eftir því hve vel höggið hæfði andstæðinginn og iðulega vann sá sem náði að fella andstæðinginn af hesti sínum. Eingöngu krýndir riddarar máttu keppa í burtreiðum en skjaldsveinar sáu til þess að ekkert vantaði til, auk þess sem þeir hjálpuðu til eða tóku þátt í æfingum. Þrátt fyrir mikinn hlífðarbúnað, brynjur og fleira voru burtreiðar afar hættuleg íþrótt og meiðsli og jafnvel dauðsföll mjög algeng.

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Knight“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 8. desember 2005.
  • Sigríður Arnardóttir; og fleiri (1994). Alfræði unga fólksins. Örn og Örlygur. ISBN 9979-55-046-5.
  1. „On Icelandic“. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. mars 2014. Sótt 13. apríl 2012.