Rínarfossarnir
Rínarfossarnir (þýska: Rheinfall, svissneskþýska: Rhyfall) eru meðal mestu fossa Evrópu. Þeir eru í Rínarfljóti og mynda landamærin milli kantónanna Schaffhausen og Zürich í Sviss.
Lega og lýsing
[breyta | breyta frumkóða]Rínarfossanir eru í Rínarfljóti rétt sunnan við svissnesku borgina Schaffhausen, innan við bæjarmörkin á Neuhausen am Rheinfall, milli Bodenvatns og Basel. Breidd fossanna eru 150 metrar og fallhæðin samtals 23 metrar. Vatnsmagnið sem steypist niður er að meðaltali 373 m3/sek, en getur orðið miklu meira í flóðum. Metið mældist árið 1965, en þá mældist vatnsmagnið 1250 m3/sek. Rínarfossanir eru því vatnsmestu fossar Evrópu. Til samanburðar er Dettifoss með 363 m3/sek en er miklu aflmeiri sökum meiri hæðar. Rínarfossarnir mynduðust í síðasta jökulskeiði ísaldar, er Rín breytti um farveg sökum jökuls. Talið er fossarnir í núverandi mynd hafi myndast fyrir um 14-17 þúsund árum.
Nýting
[breyta | breyta frumkóða]Í upphafi 19. aldar fékk Johann Georg Neher virkjunarrétt í fossunum. Hann reisti litla aflstöð sem knúði litla verksmiðju. 1889 var rafmagnið notað fyrir fyrsta álver Evrópu. 1947 var aflstöðin stækkuð og notar hún um 25 m3/sek af vatnsmagninu í fossunum. Þetta samsvarar til 4,4 megavöttum. Nokkrum km ofar í Rín er önnur virkjun sem framleiðir 25,5 megavött. Strax árið 1887 var sótt um að fá að reisa stærra raforkuver, sem myndi nýta sér nær allt vatnsmagnið úr fossunum og framleiða 75 megavött. Umsókninni var hafnað, sem og allar síðari hugmyndir um nýting vatnsins. Öll áformin hefðu í för með sér gríðarlega umbreytingu á landslaginu. Til samanburðar má geta þess að Dettifoss gæfi af sér 85 megavött. Einnig hafa verið uppi hugmyndir um að smíða skipastiga við hliðina á fossunum. Síðast höfnuðu íbúar kantónanna Schaffhausen og Zürich slíkum hugmyndum í atkvæðagreiðslu árið 1954.
Ferðamál
[breyta | breyta frumkóða]Rínarfossanir eru gríðarlega vinsælir og eru sóttir af hundruðum þúsunda ferðamanna árlega. Fossarnir eru aðgengilegir beggja vegna Rínar. Gestamiðstöðin er Schaffhausen-megin við fossana. Búið er að reisa göngubrú (og járnbrautarbrú) rétt ofan við fossinn, þannig að hægt er að sjá niður í fossana. Tveir kastalar eru hvor sínum megin við ána. Schaffhausen-megin er Schlössli Wörth en Zürich-megin er kastalinn Laufen á hæð og gnæfir kastalinn yfir fossana og svæðið. Wörth var reist á 12. öld og þjónar í dag sem veitingahús. Laufen var reist á 9. öld og er í eigu kantónunnar Zürich í dag. Boðið er upp á bátsferðir í miðklettinn (milli fossanna), þar sem ferðamenn geta prílað upp nokkrar tröppur og staðið milli beljandi vatnsflaumanna. Einnig er boðið upp á bátsferðir milli beggja bakkanna fyrir neðan fossana, þannig að hægt er að fara í gönguferð hringum í kringum alla fossana. Þeir eru lýstir upp eftir að skyggja tekur.
Annað markvert
[breyta | breyta frumkóða]Fossarnir eru ófærir öllum skipum og bátum. Hins vegar reyna ofurhugar stundum að komast niður fossana á sportbátum (kajak). Slíkt er með öllu óheimilt og er refsivert athæfi. Engu að síður birtast á netinu myndir af hinni og þessari svaðilför niður fossana.
Rínarfossarnir eru einnig ófærir öllum fiskum, nema álnum. Honum hefur tekist að komast upp fossana með því að skríða á grasinu og grjótinu meðfram fossunum á uppleið.