Reykjavíkurbiblía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Reykjavíkurbiblía, 1859, er sjöunda heildarútgáfa Biblíunnar á íslensku, prentuð í Reykjavík, í Prentsmiðju Íslands, sem þá var í eigu Einars Þórðarsonar.

Á titilblaði stendur: BIBLÍA, það er öll Heilög ritning, út gefin að tilhlutun hins íslenzka biblíufélags. 6. útgáfa. (Réttara 7. útgáfa).

Í Reykjavíkurbiblíu er texti Viðeyjarbiblíu (1841) prentaður nánast óbreyttur. Þarna eru Apókrýfar bækur Gamla testamentisins prentaðar í síðasta sinn í íslenskum biblíum um langt skeið. Þær voru aftur teknar upp í Biblíu 21. aldar, sem kom út 2007.

Mjög var til útgáfunnar vandað, bókin er í stærra broti en Viðeyjarbiblían, prentuð með gotnesku letri eins og allar fyrri biblíuútgáfur íslenskar, og er Reykjavíkurbiblían með því síðasta sem prentað var með því letri hér á landi. Er eins og menn hafi veigrað sér við að breyta þeirri hefð að prenta Biblíur með gotnesku letri, þó að latínuletur væri þá almennt notað á íslenskar bækur. Varðveittar biblíur eru yfirleitt í alskinnsbandi og gyllt á kjöl. Reykjavíkurbiblían var gefin út í 2.000 eintökum og kostaði óbundið eintak 3 ríkisdali og 48 skildinga.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  • Sigurður Ægisson: Grein í Morgunblaðinu 1. október 2006.