Fara í innihald

Rex og pex í Mexíkó

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa belgísku útgáfu bókarinnar.

Rex og pex í Mexíkó (franska: Tortillas pour les Dalton) eftir Maurice de Bevere (Morris) og René Goscinny er 31. bókin í bókaflokknum um Lukku Láka. Bókin kom út árið 1967, en sagan sem hún hefur að geyma birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval (f. Le Journal de Spirou) árið 1966.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Fangelsið sem geymir Daldónana er yfirfullt og er ákveðið að flytja þá í fangavagni í annað fangelsi nærri mexíkósku landamærunum. Á leið þangað er fangavagninum rænt af bandíttanum Emilíó Espúelas og gengi hans og flytja þeir vagninn yfir ána Rio Grande inn í Mexíkó. Þegar ríkisstjórn Mexíkó hótar að slíta stjórnmálasambandi við Bandaríkin vegna málsins fellst Lukku Láki á að fara til Mexíkó til hafa hendur í hári Daldóna og flytja þá aftur til sinna fyrri heimkynna. Jobbi Daltón telur Emilíó trú um að sérþekking Daldónanna á afbrotum geti komið honum að notum og þeir gera með sér óformlegt bandalag. Lukku Láki kemur til bæjarins Kochitakozingo í fylgd Léttfeta og Rattata, en þar er litla hjálp að fá þar sem lögreglustjóri Ko ... bæjarins óttast mjög Emilíó og kumpána hans. Æðsti draumur Emilíós er að ræna stærsta jarðeiganda héraðsins, Don Dósóþeos Pinnos, og heimta fyrir hann ríkulegt lausnargjald. Þegar leiðir Lukku Láka og Don Dósóþeosar liggja saman fyrir tilviljun taka þeir höndum saman um að leggja gildru fyrir Emilíó og efna til veislu á búgarði Dósóþeosar. Emilíó sér sér leik á borði og sendir Daldónana í veisluna dulbúna sem farandsöngvara til þess að ræna Don Dósóþeosi.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Rex og pex í Mexíkó var síðasta Lukku Láka bókin sem kom út á vegum belgíska útgáfufélagsins Dupuis. Í kjölfarið hélt Morris til liðs við franska útgefandann Dargaud þar sem Goscinny var einn eigenda og útgáfustjóri. Dargaud þótti frjálslyndari og nýjungagjarnari útgefandi en hið virðulega Dupuis og tímaritið Pilote, sem Dargaud gaf út, höfðaði til eldri lesenda myndasagna en Svalur sem áður hafði birt Lukku Láka sögurnar. Breyttar áherslur mátti strax greina í fyrstu Lukku Láka sögunni sem birtist í Pilote, Daldónaborg, sem kom út árið 1969.
  • Rex og pex í Mexíkó er einungis önnur Lukku Láka bókin sem gerist utan landsteina Bandaríkjanna. Sú fyrsta var Kuldaboli bítur Daldóna sem gerist að mestu í Kanada. Goscinny gerir sér óspart mat úr árekstri ólíkra menningarheima sem heimsókn Daldónanna til starfsbræðra sinna í Mexíkó hefur í för með sér. Eins og umfjöllun um Rex og pex í Mexíkó á aðdáendasíðum Lukku Láka fandeluckyluke.com Geymt 2 febrúar 2011 í Wayback Machine og bangbangluckyluke.com ber með sér er hún oft talin ein af allra bestu bókunum í bókaflokknum.
  • Daldónarnir virðast síst gæddir meiri sönghæfileikum en hið víðfræga ljóðskáld Gaulverjabæjar Óðríkur algaula, karakter sem Goscinny skapaði nokkrum árum fyrr í bókaflokknum um Ástrík gallvaska.
  • Þetta er fyrsta bókin í bókaflokknum þar sem Lukku Láki er hvergi sjáanlegur framan á kápu.

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Rex og pex í Mexíkó var gefin út af Fjölva árið 1978 í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen. Þetta er sjöunda bókin í íslensku ritröðinni.