Púnt
Púnt (fornegypska: pwnt) var fornt ríki sem er aðallega þekkt úr fornegypskum heimildum um viðskipti við það, frá fimmtu konungsættinni til loka Nýja ríkisins eða frá 25. öld til 11. aldar f.Kr. Eftir að versluninni lauk kom landið fyrir í bókmenntum sem goðsögulegt gósenland. Frá Púnt keyptu Egyptar gull, reykelsi, myrru, svartvið, íbenholt, fílabein og villt dýr. Hugsanlega svarar Púnt til þess lands sem Grikkir kölluðu síðar Opóne og sumir fræðimenn vilja tengja það við Biblíustaðina Pút eða Havila.
Púnt var líka þekkt sem Ta netjer (tꜣ nṯr, „land guðs“). Staðsetning þess er umdeild. Flestir telja að það hafi verið suðaustan við Egyptaland, líklega í strandhéruðum Djibútí, Sómalíu, norðausturhluta Eþíópíu, Erítreu og Rauðahafsströnd Súdan. Það er líka hugsanlegt að það hafi náð bæði yfir Horn Afríku og suðurodda Arabíuskaga. Sómalska héraðið Púntland dregur nafn sitt af landinu.