Pikriksýra

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Pikriksýra er lífræn sýra sem hefur verið notuð sem sprengiefni. Hún var notuð í fallbyssukúlur í fyrri og seinni heimstyrjöldinni. Pikriksýra er notuð á rannsóknarstofum og til sótthreinsunar. Af öryggisástæðum er mælt með því að pikriksýra sé geymd í fljótandi formi og rannsóknarstofur geyma þessa sýru í flöskum undir vatnslagi. Ekki má geyma pikriksýru í málmílátum. Ef pikriksýra hefur þornað upp er oft leitað til sprengjueyðingaraðila. Í herskipum sem hafa sokkið er oft pikriksýra og þannig aðstæður að hún hefur komist í snertingu við málm. Það gerir að verkum að mikil sprengihætta getur skapast. Pikriksýra fannst í fallbyssukúlum í flaki El Grillo á botni Seyðisfjarðar.

Pikriksýra er fyrst nefnd í riti eftir Johann Rudolph Glauber frá árinu 1742. Árið 1873 sýndi Hermann Sprengel fram á að pikriksýru mætti nota sem sprengiefni og árið 1894 var þróuð í Rússlandi aðferð til að búa til sprengikúlur. Skömmu seinna var pikriksýra orðin aðalsprengjuefni hervelda heimsins. Hins vegar kom í ljós að mjög hættulegt var að nota pikriksýru og það kom sérstaklega fram í Sprengingunni miklu í Halifax 6. desember 1917 þegar skip hlaðið sprengiefni, þar með talið miklu af pikriksýru, sprakk í loft upp.

Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
  Þessi efnafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.