Fara í innihald

Pierre Ozanne

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Svartsteinsmynd sem Pierre Ozanne teiknaði af konu á Patreksfirði árið 1772. Konan er með svonefndan krókfald.

Pierre Ozanne (3. desember 173710. febrúar 1813) var franskur teiknari frá borginni Brest á Bretagne-skaga. Hann var með í frönskum leiðangri sem var farinn til Íslands og víðar árið 1771 og gerður út af Loðvík 15. konungi Frakklands. Leiðangurinn kom við á Patreksfirði og kom þangað 1. júlí árið 1772. Leiðangurinn var undir stjórn Jean René Antoine Marquis de Verdun de la Crenne og var ætlað að gera nákvæmar staðaákvarðanir fyrir ýmsa staði til þess að gera nákvæmari siglingakort.

Eftir Pierre Ozanne hafa varðveist nokkrar frumteikningar úr þessari ferð, meðal annars frá Patreksfirði, Tálknafirði, Vestmannaeyjum, auk tveggja portrettmynda. Vitað er að hann gerði margar fleiri myndir frá Íslandi en þær munu glataðar. Pierre Ozanne starfaði hjá franska sjóhernum sem teiknari, málari og skipaverkfræðingur. Hann var yngri bróðir Nicolas Ozanne sem er einn þekktasti skipa- og sjávarmyndamálari Frakka.

Myndir Pierre Ozanne frá Íslandi eru frummyndir fullgerðar á staðnum, en ekki unnar eftir skissum þegar heim var komið eins og algengast var á þessum tíma.

Ein mynda hans frá Patreksfirði er varðveitt á Louvre safninu. Á hana hefur verið skrifað „Patreksfjörður að morgni, þar sem legið var við festar. Komum þann fyrsta júlí 1772 og fórum þann tuttugasta sama mánaðar“. Myndin er teiknuð með svartsteini(hæð 18,5 cm lengd 42,5 cm) og hefur Ozanne setið í skektu á legunni við Vatneyri á góðviðrismorgni. Á myndinni má sjá freigátuna „La Flore“, dráttarbátinn, danskt kaupskip og marga smábáta. Leiðangursmenn eru að koma í land og mannfjöldi í fjörunni og seglskip að leggja út á haf.

Portrettmyndirnar tvær eru meðal örfárra frumteikninga sem til eru af íslenskum konum á 18. öld. Þær eru báðar gerðar á Patreksfirði og eru um 20×25 sm á stærð. Þær fundust á safni sjóhersins i París, en frummyndirnar eru í einkaeign.