Philipskúrfan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Philipskúrva sem gerir greinarmun á skammtíma- og langtímaáhrifum á atvinnuleysi og verðbólgu.

Philipskúrfan er hagfræðilíkan sem reynir að skýra fylgni milli breytinga á atvinnuleysisstigi og launahækkunum. Líkanið er nefnt eftir William Phillips (1914-1975) sem var Ný Sjálenskur hagfræðingur. Hugmyndin á bak við Philipskúrfuna segir að breyting á atvinnuleysi innan hagkerfis hafi fyrirsjáanleg áhrif á verðbólgu. Upprunalega hugmyndin um Philipskúrfuna hefur verið afsönnuð að mestu leiti vegna þess að stöðnun varð á áttunda áratugnum, þegar bæði verðbólga og atvinnuleysi var mikil.[1]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

William Phillips skrifaði grein árið 1958 sem bar titilinn “The Relation between Unemployment and the Rate of Change of Money Wage Rates in the United Kingdom” sem var birt í tímaritinu Economica. Í greininni lýsir Phillips því hvernig hann sá öfugt samband milli breytingu launastigs og atvinnuleysis í breska hagkerfinu. [2]

Phillips var samt sem áður ekki sá fyrsti til að bera kennsl á sambandið milli atvinnuleysis og verðbólgu. John Law (1671-1729 skrifaði um sambandið milli atvinnuleysis og verðbreytinga en hann taldi samt sem áður að atvinnuleysi eykst við verðlækkanir en ekki hækkanir eins og myndi koma fram seinna. Skoski heimspekingurinn og hagfræðingurinn David Hume (1711-1776) skrifaði um áhrif sem tímabundin frávik atvinnnuleysis frá náttúrulegu stigi hefur á verðbreytingar árið 1752.[3]

Árið 1960 veitti R.G. Lipsey ásamt Paul Samuelson og Robert Solow frekari stuðning við niðurstöður Phillips. Með mikilli og óstöðugri verðbólgu á áttunda áratug síðustu aldar, sem komst í 13,5 prósent árið 1980 missti Philipskúrfan trúverðugleika þegar bæði verðbólga og atvinnuleysi jókst mikið. Milton Friedman og Edmund Phelps fundu að þegar verðbólguvæntingar eru byggðar inn í Philipskúrfuna og einstaklingar sjá fullkomlega fram á verðbólgu mun atvinnuleysi ná jafnvægi á náttúrulegu stigi eins og það er ákvarðað af markaðsöflum og langtíma Philipskúrfan verður lóðréttur sem þýðir að það verða engin fórnarskipti á milli verðbólgu og atvinnuleysis.[2]

Stöðnunarverðbólga (e. Stagflation)[breyta | breyta frumkóða]

Stöðnunarverðbólga á sér stað þegar hagkerfið býr við stöðnun hagvaxtar, mikið atvinnuleysi og háa verðbólgu. Þessi atburðarás stangast auðvitað beint á við kenninguna á bak við Philipskúrfuna. [4]

Vísbendingar frá áttunda áratugnum bentu til þess að sambandið milli atvinnuleysis og verðbólgu hefði rofnað. Á áttunda áratugnum jókst stöðnun vegna aukins atvinnuleysis og verðbólgu. Þessi stöðnun á hagvexti var til kominn vegna olíukrísunnar áttunda áratugsins þar sem miklar truflanir voru á eldsneytismarkaði meðal annars vegna gengisfellingar bandaríkjadollars og verðsamráðs milli OPEC landanna. Í dag hafa nýjar útgáfur af philipskúrfunni bætt við kostnaðarverðbólga (e. cost-push inflation) sem taka því tillit til tímabundnum truflunum á mörkuðum. Stuðningsmenn peningamagnshyggju héldu því fram að aukið peningamagn leiddi aðeins til launaverðbólgu og hjálpaði ekki til við að draga úr atvinnuleysi. Þeir beittu sér að því að draga úr peningamagni og ná fram lágri verðbólgu. Það atvinnuleysi sem myndi koma með því myndi bara reynast tímabundið samkvæmt þeim. [5]

Notkun í dag[breyta | breyta frumkóða]

Flestir hagfræðingar nota ekki lengur Philipskúrfuna í upprunalegri mynd vegna þess að sýnt hefur verið fram á að hún er fremur einföld og nái ekki að lýsa sambandinu milli atvinnuleysis og verðbólgu. Í dag hafa breyttar myndir af Philipskúrfunni sem taka tillit til verðbólguvæntinga áfram áhrif. Kenningin gengur undir nokkrum nöfnum með nokkrum breytingum í smáatriðum en allar nútímaútgáfur gera greinarmun á skammtíma- og langtímaáhrifum á atvinnuleysi. Þetta er vegna þess að til skamms tíma litið er almennt öfugt samband á milli verðbólgu og atvinnuleysis en þetta samband sést ekki þegar horft er til lengri tíma. [5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Phillips curve | Definition, Graph, & Facts | Britannica“. www.britannica.com (enska). Sótt 9. október 2022.
  2. 2,0 2,1 James A. Dorn (Vetur 2020). „The Phillips Curve: A Poor Guide for Monetary Policy“. Cato Journal.
  3. Thomas M. Humphrey (1985). The early history of the Phillip curve. Economic review. bls. 18.
  4. „The Phillips Curve Economic Theory Explained“. Investopedia (enska). Sótt 9. október 2022.
  5. 5,0 5,1 Tejvan Pettinger (Mars 2019). „Phillips Curve“. Economics help.
  Þessi hagfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.