Fara í innihald

Péturskirkjan í Trier

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Péturskirkjan í Trier

Péturskirkjan er dómkirkja þýsku borgarinnar Trier og elsta dómkirkja Þýskalands. Í grafhvelfingunni hvíla hinir ýmsu erkibiskupar og kjörfurstar sem setið hafa í Trier. Þar er einnig að finna hina heilögu skikkju en það er skikkjan sem Jesús er talinn hafa verið í. Dómkirkjan er á heimsminjaskrá UNESCO.

Saga Péturskirkjunnar

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirrennari núverandi kirkju var reistur á 4. öld er Konstantínus mikli gerði kristni að ríkistrú í Rómaveldi. Kirkjan varð brátt að einni stærstu kirkjubyggingu Evrópu, með fjórum skipum, ásamt hliðarkapellum. Hún var jafnframt elsta dómkirkja á þýskri grundu. Kirkja þessi var eyðilögð af frönkum á 5. öld. Hluti hennar var þá endurreistur, en víkingar gjöreyddu henni svo árið 882. Núverandi bygging var reist í kjölfarið á því en hún var stækkuð á komandi öldum. Einnig voru gerðar á henni ýmsar breytingar. Þak kirkjunnar brann 1717 og voru þá gerðar viðamiklar breytingar á kirkjunni. Kirkjan skemmdist talsvert í loftárásum seinna stríðs. Viðgerðir fóru hins vegar fljótt fram. 1986 var kirkjan sett á heimsminjaskrá UNESCO. 2008 fór í fyrsta og eins skiptið fram blessun yfir manneskju í kirkjunni, er móðir Rósa (1826-1906) var lýst blessuð, en það er fyrirrennari þess að vera lýstur helgur. Í kirkjunni fara iðulega fram tónleikar.

Listaverk og dýrgripir

[breyta | breyta frumkóða]

Hið helga skikkja

[breyta | breyta frumkóða]
Teikning frá 1933 af skikkjunni helgu, en engar ljósmyndir eru til af henni

Helsti dýrgripur Péturskirkjunnar er hin helga skikkja sem Jesús var í í lifanda lífi. Samkvæmt Jóhannesarguðspjalli vörpuðu Rómverjar hlutkesti um klæði Jesú hver mátti eignast hana. Það var Flavía Ágústa, móðir Konstantínusar mikla, sem kom með skikkjuna til Trier, en hún kallast skikkjan helga. Hún kom fyrst fram við skjöl 1196 og lengi vel geymd innan í altari í kirkjunni. 1512 var altarið opnað og skikkjan tekin út í fyrsta sinn. Hún var þá hengd upp til sýnis en þúsundir manna streymdu þá til kirkjunnar sem pílagrímar. Skikkjan var hins vegar aðeins til sýnis á vissum árum og þá í stuttan tíma í senn: 1513-1517, 1524, 1531, 1538, 1545, 1655, 1810, 1844, 1891, 1933, 1959 og 1996. Árið 1810 var skikkjan til sýnis í 18 daga og streymdu á þessum stutta tíma rúmlega 200 þúsund manns í kirkjuna. 1844 var skikkjan til sýnis í sjö vikur og sóttu þá rúmlega milljón manns kirkjuna heim. 1933 voru það tvær milljónir manna og 1959 1,8 milljónir. Milli 1657-1794 var skikkjan geymd í virkinu Ehrenbreitstein í Koblenz, enda voru þá ótryggir tímar og stríð tíð. Næsta skiptið sem skikkjan mun vera til sýnis er 2012. Tilurð skikkjunnar er umdeild. Engar rannsóknir hafa farið fram um uppruna hennar og því liggja engar frekari upplýsingar fyrir.

Andrésarskrínið

[breyta | breyta frumkóða]
Andrésarskrínið

Andrésarskrínið er lítið gullslegin kista sem geymir einn sandala postulans Andrésar. Skrínið er ekki nema 45 x 22 cm að stærð. Ofan á skríninu er afsteypa af fæti Andrésar úr gulli. Auk sandalans er í skríninu nokkrir aðrir helgihlutir, svo sem nokkur skegghár sem er sagt vera af Pétri postula, keðjuhringur Péturs sem hann var bundin með, nagli sem sagður er úr krossi Jesú og drykkjarbikar heilagrar Helenu, móður Konstantínusar mikla.

Kirkjusteinninn

[breyta | breyta frumkóða]
Granítsúla kölska

Fyrir framan aðalinngang að Péturskirkjunni liggur um fjögurra metra löng granítsúla, 65 tonn að þyngd. Sagan segir að kölski hafi verið ginntur til að aðstoða við að reisa kirkjuna gegn veglegum launum. Þegar hann svikin launum sínum, hafi hann tekið súluna og kastað henni í kirkjuna, í þeirri von að hún eyðilagðist. Kirkjan stóð óhreyfð en súlan hafi síðan fengið að liggja þar sem hún lenti. Sennilegt er þó að súlan hafi verið ein af uppistöðum fyrirrennara kirkjunnar sem frankar eyðilögðu á 5. öld.

Kirkjuklukkur

[breyta | breyta frumkóða]

Allar kirkjuklukkur eyðilögðust í bruna og hita í heimstyrjöldinni síðari. 1951 fékk kirkjan því tíu nýjar klukkur, en þær eru samanlagt eitt þyngsta klukknaverk í þýskri kirkju. Sú þyngsta vegur tæp átta tonn og heitir Kristus & Helena. Samanlagt vegur klukknaverkið 24,3 tonn.

Fyrirmynd greinarinnar var „Trierer Dom“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júní 2010.