Pálmi Jónsson í Hagkaup

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Pálmi Jónsson (3. júní 1923 - 4. apríl 1991) var íslenskur lögfræðingur og athafnamaður. Pálmi var umsvifamikill í verslunarrekstri og stofnaði verslunina Hagkaup árið 1959.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Pálmi fæddist á bænum Hofi á Höfðaströnd og ólst þar upp. Hann var sonur hjónanna Jóns Jónssonar bónda (1894-1966) og Sigurlínu Björnsdóttur húsfreyju (1898-1986). Pálmi átti tvíburasysturina Sólveigu. Einnig ólust upp á bænum frændur tvíburanna þeir Andrés Björnsson og Friðrik Pétursson sem voru á svipuðu reki. Það var jafnan mannmargt á Hofi. Vinnumenn, vinnukonur, sumarkrakkar, ættingjar, gestir og gangandi.

Fljótlega tók fólk eftir Pálmi hversu útsjónarsamur Pálmi var í að finna nýjar leiðir ýmist til að létta fólki störfin eða gera þau árangursríkari. Þetta átti eftir að koma sér vel í viðskiptum.

Pálmi átti létt með að læra. Eftir nám í Barnaskólanum á Hofsósi fluttist hann suður og fór í Menntaskólann í Reykjavík og lauk stúdentsprófi vorið 1942. Hann bjó hjá frænda sínum og nafna Pálma Hannessyni rektor. Pálmi lærði síðan lög í Háskóla Íslands og lauk lögfræðiprófi 1951. Strax á námsárunum voru viðskipti farin að eiga hug hans.

Pálmi kynntist Jónínu Sigríði Gísladóttur (1921-2008) á háskólaárum sínum og kvæntist henni árið 1959. Jónína stundaði framan af verslunarstörf en gerði svo húsmóðurstarfið að aðalstarfi. Hún hafði mikinn áhuga á menningu og listum ásamt því að stunda hestamennsku og garðrækt. Heilbrigðismál voru Jónínu mikið hugðarefni og studdi hún t.a.m. við Hjartadeild Landspítalans með peningagjöfum til tækjakaupa. Þau hjónin eignuðust fjögur börn.

Haustið 1959 stofnaði Pálmi Hagkaup, áður hafði hann stundað ýmis konar viðskipti, til dæmis rekið veitingastað og ísgerðina Ísborg í félagi við Steingrím Hermannsson. Í fyrstu var Hagkaup póstverslun og var hún til húsa í gamalli fjósbyggingu við Miklatorg í Reykjavík. Pálmi gerði næstum allt sjálfur, yfirbyggingin var engin. Það var nýlunda í versluninni að Pálmi gaf út verðlista handa viðskiptavinum sínum.

Hagkaup var vel tekið og óx fyrirtækinu hratt fiskur um hrygg. Fljótlega voru fleiri Hagkaupsverslanir opnaðar bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni. Í fyrstu var einungis á boðstólum heimilisvara og fatnaður, en matvara bættist við undir 1970. Það sem einkenndi Hagkaup var lægra vöruverð og aukið vöruúrval.

Pálmi hafði forgöngu um byggingu Kringlunnar sem opnuð var árið 1987. Með henni var sömuleiðis brotið blað í verslunarsögunni. Verslunarmiðstöð af slíkri stærðargráðu var óþekkt hérlendis og bar hugmyndin bæði vott um framsýni og áræðni.

Í janúar árið 1991 var Pálmi sæmdur riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf að málefnum verslunar.

Pálmi Jónsson lést fyrir aldur fram í apríl árið 1991.