Fara í innihald

Otte Stigsen Hvide

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Otte Stigsen Hvide (d. eftir 1567) eða Otti Stígsson var danskur sjóliðsforingi sem var hirðstjóri á Íslandi 1542-1547 og aftur árið 1551.

Otte Stigsen var af Hvide-ættinni sem var gömul dönsk aðalsætt. Hans er fyrst getið 1509 og er hann þá yfirmaður í leiðangri til Finnlands. Hann leiddi bændauppreisn á Skáni til stuðnings Kristjáni 2. árið 1525 og var einnig stuðningsmaður hans í Greifastríðinu en síðar sættist hann við Kristján 3. og varð helsti sjóliðsforingi hans og barðist meðal annars gegn sjóræningjum á Norðursjó.

Árið 1542 varð hann hirðstjóri á Íslandi og var falið af konungi að framfylgja banni við vetursetu útlendinga hér, sem var þó í rauninni aðeins ítrekun á Píningsdómi, sem hafði verið slælega framfylgt á árunum á undan svo að Hamborgarkaupmenn og aðrir þýskir höndlarar voru farnir að setjast að á landinu, einkum í Hafnarfirði, og höfðu reist þar kirkju. Otti gerði upptæka alla báta og aðrar eignir Þjóðverja á Suðurnesjum og gengu um það dómar á alþingi 1544 og 1545. Hann lét af hirðstjóraembætti 1447 og hélt til Danmerkur en Laurentius Mule tók við. Hann var þó ekki sami skörungur og Otti og flúði undan Jóni Arasyni þegar hann kom í Viðey sumarið 1550.

Vorið 1551 sendi Kristján 3. Otta með tvö herskip til Íslands til að berja niður uppreisn Jóns, sem frést hafði af til Kaupmannahafnar haustið áður, en þá var búið að höggva Jón og syni hans og Dönunum var ekki veitt nein mótspyrna. Otti hafði hér hirðstjóravald það ár en hvarf síðan aftur til Danmerkur. Svíar tóku hann til fanga í sjóorrustu við Borgundarhólm 1563. Hann var þá líklega hátt á áttræðisaldri og er talið að hann hafi dáið í sænsku fangelsi en hann var þó enn á lífi 1567. Hann var ókvæntur.

  • „Dansk biografisk leksikon hjá Projekt Runeberg“.
  • „Hvenær hófst verzlunareinokun á Íslandi? Frjáls verslun 1955, 3.-4. tbl“.


Fyrirrennari:
Christoffer Huitfeldt
Hirðstjóri
(15421547)
Eftirmaður:
Laurentius Mule
Fyrirrennari:
Laurentius Mule
Hirðstjóri
(15511551)
Eftirmaður:
Eggert Hannesson