Opinbert fyrirtæki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Opinbert fyrirtæki eða ríkisfyrirtæki er fyrirtæki sem er að mestu eða öllu leyti í eigu ríkis eða sveitarfélaga. Slík fyrirtæki eru oft stofnuð um rekstur á vegum hins opinbera sem þjónar viðskiptalegum tilgangi. Engin algild skilgreining er á því hvaða skilyrði þarf að uppfylla til að fyrirtæki teljist opinbert fyrirtæki þar sem hið opinbera getur verið hluthafi í fyrirtækjum án þess að þau verði við það opinber fyrirtæki. Opinber fyrirtæki verða gjarnan til í kjölfar þjóðnýtingar, þar sem ætlunin er að gera rekstur stofnana líkari fyrirtækjarekstri til að bæta skilvirkni, þar sem hið opinbera á í samkeppni við einkafyrirtæki og þar sem hið opinbera fæst við rekstur vegna náttúrulegrar einokunar. Oftast gilda um slík fyrirtæki lög um opinber fyrirtæki eða sérlög um tiltekin fyrirtæki. Stundum er stofnun opinbers hlutafélags undanfari einkavæðingar, en þá eru hlutirnir seldir einkaaðilum í kjölfarið. Stofnun slíkra fyrirtækja hefur líka tengst tilraunum stjórnmálamanna til að breiða yfir opinberar skuldir, stjórnunarmistök og spillingu.

Ríkistengd fyrirtæki eru sjálfstæð einkafyrirtæki þar sem hið opinbera á stóran hlut, er stór viðskiptavinur eða ber mikla fjárhagslega ábyrgð á rekstrinum. Opinber eignarhaldsfélög eru oft notuð til að fara með eign hins opinbera í einkafyrirtækjum. Stundum er umboð hins opinbera til afskipta af stjórnum fyrirtækjanna takmarkað, meðal annars vegna samkeppnissjónarmiða. Sjálfstæð fyrirtæki þar sem hið opinbera er eini eða langstærsti viðskiptavinurinn eru stundum stofnuð í kringum mjög sértæka starfsemi eins og sérhæfð innkaup eða fjármögnun. Stundum á hið opinbera kauprétt á meirihlutaeign í fyrirtækinu.

Dæmi um rekstur sem algengt er að sé settur upp sem opinbert fyrirtæki eru orkufyrirtæki (t.d. olíufélög í Mið-Austurlöndum), ríkisfjölmiðlar, ríkisflugfélög, flugvellir, hafnir og önnur fyrirtæki sem sjá um samgöngur, póstþjónustufyrirtæki og bankar.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi fyrirtækjagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.